Íslandsbanki hagnaðist um 8 milljarða á fyrri árshelmingi 2017. Samhliða því hefur útlánastarfsemi aukist töluvert og vanskilahlutfall minnkað á síðustu misserum. Þetta kemur fram í árshelmingsuppgjöri bankans sem birt var í morgun.
Af 8 milljarða hagnaði bankans voru 3 þeirra á fyrsta ársfjórðungi og um 5 þeirra á öðrum ársfjórðungi. Til samanburðar hagnaðist bankinn í fyrra um 3,5 milljarða á fyrsta ársfjórðungi og 9,5 milljarða á öðrum ársfjórðungi. Mikill hagnaður á öðrum ársfjórðungi í fyrra var að miklu leyti vegna einskiptishagnaðar af sölu Borgunar.
Hagnaðarmisræmi vegna sölu Borgunar skilaði sér einnig í arðsemi eigin fjár, en hún lækkaði lítillega úr 12,9% á fyrri árshelmingi í fyrra niður í 9,2% í ár.
Þrátt fyrir minni hagnað og arðsemi eigin fjár má sjá jákvæða þróun innan bankans í hálfsársuppgjöri bankans, stjórnunarkostnaður lækkaði um 6% og vaxtamunur lækkaði niður í 2,9%. Einnig jukust útlán til viðskiptavina um 4,9%, þótt hreinar vaxtatekjur hafi lækkað um 4% milli tímabila.
Mesta breytingin milli tímabila hefur þó líklega verið hlutfall vanskila, en það fór ört lækkandi á síðustu ársfjórðungum. Hlutfallið var 1,2% á öðrum ársfjórðungi í ár, samanborið við 2,5% á sama tímabili í fyrra.
Í tilkynningu fyrirtækisins fylgdi yfirlýsing frá Birnu Einarsdóttur, bankastjóra Íslandsbanka, en þar segir hún fyrstu sex mánuði ársins hafa verið viðburðaríka. Góður gangur sé í fjárfestingabankastarfsemi og í fyrirtækjaráðgjöf. Einnig bætir hún við að flutningar í nýjar höfuðstöðvar muni klárast í september, en bankinn þurfti að flytja úr Kirkjusandi nýlega sökum myglusvepps.