Alls hafa þrír íslenskir lífeyrissjóðir fjárfest í United Silicon fyrir 2.166 milljónir króna. Sjóðirnir sem um ræðir eru Festa lífeyrissjóður, Frjálsi lífeyrissjóðurinn og Eftirlaunasjóður félags íslenskra atvinnuflugmanna (EFÍA). Þetta kemur fram í Morgunblaðinu í dag.
Þar segir að Frjálsi lífeyrissjóðurinn hafi fjárfest mest, eða fyrir 1.178 milljónir króna. Rúmur helmingur af fjárfestingu lífeyrissjóða í verksmiðjunni er því frá þeim sjóði komin. Allir þrír sjóðirnir tóku þátt í hlutafjáraukningu í apríl og lögðu þá 460 milljónir króna til viðbótar í United Silicon. Rúmum fjórum mánuðum síðar var United Silicon komið í greiðslustöðvun og vinnur nú að gerð nauðasamninga við kröfuhafa sína. Í þeim samningum eru umræddir lífeyrissjóðir í tvíþættri stöðu, þar sem fjárfesting þeirra í United Silicon er bæði í formi hlutabréfa- og skuldabréfaeignar.
Arnaldur Loftsson, framkvæmdastjóri Frjálsa lífeyrissjóðsins, og BaldurSnorrason, sjóðstjóri Festa lífeyrissjóðs, segja við Morgunblaðið að viðbótarhlutaféð sem lagt var til í apríl hafi verið til að reyna að tryggja fyrri fjárfestingu. Þeir hafi fengið ný C-hlutabréf fyrir sem veiti rétt til forgangs á arðgreiðslu og tvöfalt atkvæðavægi. Aðspurðir um hvort að sjóðir þeirra muni leggja meira fé í United Silicon segja báðir að það sé ekki tímabært að svara þeirri spurningu.
Áhrif á Arion banka opinberuð í næstu viku
Kjarninn greindi frá því í gær að hlutafé í United Silicon hefði verið aukið um 752 milljónir króna á nafnvirði í apríl, samkvæmt skjölum sem send voru til fyrirtækjaskráar. Arion banki tók einnig þátt í aukningunni og á í dag 16 prósent hlut í United Silicon. Það kom fram í svari bankans við fyrirspurn Kjarnans á þriðjudag. Arion banki er líka aðal lánardrottinn United Silicon. Arion rekur auk þess Frjálsa lífeyrissjóðinn og hann er til húsa í höfuðstöðvum bankans í Borgartúni.
Staða United Silicon hefur áhrif víðar en bara á þá sem lánuðu fyrirtækinu fé eða keyptu hluti í því. Landsvirkjun selur verksmiðjunni t.d. rafmagn og Reykjanesbær hefur umtalsverðar tekjur af rekstri hennar. Þá eiga Íslenskir Aðalverktakar (ÍAV) kröfu upp á milljarð króna á United Silicon vegna vangreidds kostnaðar sem féll til við byggingu verksmiðjunnar. Þegar hefur verið greint frá því að Reykjanesbær hafi ekki fengið greitt á annað hundrað milljónir sem United Silicon skuldar sveitarfélaginu í gatnagerðargjöld.