Ef hætt yrði að skerða framfærsluuppbót „krónu á móti krónu“ vegna annarra tekna lífeyrisþega gæti það kostað ríkissjóð 11,4 milljarða krónu árlega. Þetta kemur fram í svari félags- og jafnréttismálaráðherra við fyrirspurn á Alþingi.
Halldóra Mogensen þingmaður Pírata lagði fram fyrirspurn til Þorsteins Víglundssonar, félags- og jafnréttismálaráðherra, á Alþingi þann 29. maí síðastliðinn. Fyrirspurnin snerist um hugsanlegan kostnað ríkissjóð ef svokölluð „króna á móti krónu“ bótaskerðing yrði afnumin.
Svar ráðherra við fyrirspurninni birtist á vef Alþingis í dag, en samkvæmt því er ekki hægt að segja nákvæmlega til um kostnaðinn. Framfærsluuppbætur eru á bilinu 4.953-58.985 kr. á mánuði, eftir því hversu gamlir örorkulífeyrisþegar voru þegar þeir voru fyrst metnir til 75% örorku og hvort þeir fá greidda heimilisuppbót eða ekki.
Ef miðað er við að viðbót við tekjutryggingu yrði 58.986 kr. er kostnaður vegna afnáms bótaskerðingar þeirra öryrkja sem hafa aðrar tekjur áætlaður 11.438 milljónir króna á ári hverju.
Enn fremur spurði Halldóra hver viðbótarkostnaður ríkissjóðs yrði ef einungis 60% allra tekna öryrkjanna væri notuð til útreiknings framfærsluuppbótar, en samkvæmt ráðherranum myndi það kosta ríkið 14.500 milljónir króna á ári hverju. Sömuleiðis var spurt hversu mikill kostnaður fælist í því ef það giltu sömu útreikningsreglur um sérstaka framfærsluuppbót og um tekjutryggingu, en ráðherra svaraði að hann gæti numið 6,6 milljörðum króna á ári.