Fjárfestingasjóðurinn The Wellington Trust Company, sem er á vegum bandaríska eignastýringarfyrirtækisins Wellington Management, keypti hlutabréf í Högum fyrir rúmlega hálfan milljarð króna í vikunni. Sjóðurinn átti engin hlutabréf í Högum fyrir viðskiptin er á nú 1,6 prósent eignarhlut í félaginu og er á meðal 20 stærstu hluthafa þess.
Töluverð viðskipti voru með hlutabréf í Högum í byrjun viku, sem leiddu til þess að hlutabréfaverð í félaginu lækkaði. Hlutabréfaverð í Högum hefur lækkað um 35 prósent frá 15. maí. Síðan þá hefur félagið tvívegis sent frá sér aðkomuviðvörun vegna þess að bráðabirgðauppgjör sýndu sölusamdrátt í magni og krónum. Ástæðan er opnun verslunar Costco þann 23. maí, en sú verslun hefur tekið til sín umtalsverð viðskipti á dagvörumarkaði. Markaðsvirði Haga hefur dregist saman um 24 milljarða króna frá því að Costco opnaði.
Eiga stóran hlut í nokkrum íslenskum félögum
The Wellington Trust Company er í sjóður í stýringu Wellington Management. Það er eitt stærsta eignastýringarfyrirtæki heims með eignir í stýringu upp á samtals um þúsund milljarða Bandaríkjadala. Sjóðurinn keypti fyrir 525 milljónir króna í Högum og var langstærsti kaupandi bréfa í félaginu í liðinni viku. Sjóðurinn hefur verið umsvifamikill á íslenskum hlutabréfamarkaði það sem af er ári og á stóra hluti í fjórum öðrum skráðum félögum.
Í lok febrúar keypti sjóðurinn stóran hlut í N1 og á í dag 4,5 prósent hlut í félaginu sem er tæplega 1,3 milljarða króna virði miðað við gengi bréfa í N1 í dag.
Í maímánuði keypti The Wellington Trust Company hlut í Nýherja. Alls á sjóðurinn nú 1,9 prósent hlut í félaginu sem er um 270 milljóna króna virði.
Þá á sjóðurinn einnig hluti í Símanum (1,8 prósent hlut sem er metinn á 740 milljónir króna) og í Eimskip (1,3 prósent sem er um 800 milljóna króna virði). Samtal er markaðsvirði þeirra bréfa sem The Wellington Trust Company er á meðal 20 stærstu hluthafa í um 3,6 milljarðar króna.
Kvika keypti í Icelandair
Það voru fleiri stór viðskipti í vikunni. Icelandair, sem hefur hríðfallið í verði á undanförnum mánuðum, rétti aðeins úr kútnum í vikunni. Það gerðist sérstaklega eftir að tveir lykilstjórnendur, Björgólfur Jóhannsson, forstjóri Icelandair Group, og Bogi Nils Bogason, framkvæmdastjóri fjármála hjá félaginu, keyptu bréf í því föstudaginn 11. ágúst. Nú er gengi bréfa í félaginu um 16 krónur á hlut en var 38,9 krónur á hlut í apríl 2016. Frá þeim tíma hefur markaðsvirði Icelandair dregist saman um 60 prósent. Markaðsvirðið er nú um 78 milljarðar króna en var 189 milljarðar króna í apríl í fyrra.
Kvika banki keypti í Icelandair fyrir 863 milljónir króna í vikunni og á nú 1,1 prósent í félaginu. Áður átti bankinn ekkert. Arion banki minnkaði stöðu sína í félaginu og seldi bréf fyrir 224 milljónir króna.
Þá keypti VÍS, sem er skráð á markað, hlutabréf í Marel fyrir 2,7 milljarða króna og Marel keypti eigin bréf fyrir 893 milljónir króna.