Horn II slhf., og Selen ehf. hafa selt sinn hlut í Keahótelum ehf. Með sölunni eignast bandarísk fyrirtæki 75% hlut í fyrirtækið, en heildarkaupverð fyrirtækisins nam 5,5 milljörðum króna. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu fyrirtækisins sem kom út í dag og greint var frá kaupverðinu á vef Vísis.
Kaupandi Keahótela var fjárfestingafyrirtækið K Acquisitions ehf., en að baki því félagi standa bandaríska fasteignafélagið JL Properties með 25% hlut, bandaríska eignastýringarfyrirtækið Pt Capital Advisors með 50% hlut og Tröllahvönn ehf. með 25% hlut. Bandarísku fyrirtækin eru nýir eigendur fyrirtækisins, en Tröllahvönn hefur verið í eigendahópi Keahótela frá árinu 2012.
Samkvæmt fréttatilkynningunni er JL Properties stærsta fasteigna-, fasteignaþróunar-, og fjárfestingafélag Alaska. Eignasafn félagsins telur yfir 185.000 fermetra og er markaðsvirði þess metið á yfir 2 milljarða Bandaríkjadala. Heimamarkaður félagsins er Alaska en félagið á jafnframt eignir í Utah, Georgíu og Flórdía fylkjum. Safnið samanstendur af bæði atvinnu- og íbúðarhúsnæði. Kaupin á Keahótelum eru fyrsta fjárfesting JL Properties á Íslandi.
Pt Capital Advisors LLC er dótturfélag bandarísks eignastýringafyrirtækis sem er með höfuðstöðvar í Anchorage í Alaska. Félagið sérhæfir sig í fjárfestingum á norðurslóðum, þar á meðal Alaska, Norður-Kanada, Grænland og Ísland. Félagið keypti ráðandi hlut í fjarskiptafélaginu Nova í mars síðastliðnum.
Uppfært kl. 14:57:
Samkvæmt frétt Vísis um kaupin var heildarkaupverðið 5,5 milljarðar króna, en miðillinn hefur það eftir heimildarmönnum sínum.