Mikil vinna hefur farið í að meta möguleg áhrif tækninýjunga á vinnumarkaðinn. Flestum ber saman um að áhrifin verði mikil. Starfstitlar, eins og við höfum þekkt þá, verða vafalítið úreltir í þessari þróun.
Þetta er meðal þess sem kemur fram í ítarlegri grein Lilju Daggar Jónsdóttur, hagfræðings og MBA frá Harvarda háskóla og framkvæmdastjóra hjá fyrirtækinu Burning Glass Technologies í Boston, í nýjustu útgáfu Vísbendingar.
Í grein sinni fjallar Lilja Dögg um þær miklu breytingar sem eru að verða á atvinnustarfsemi, vítt og breitt, vegna tækniþróunar. „Í breskri rannsókn sem unnin var við Oxford háskóla voru yfir 700 starfsheiti metin gegn líkani sem áætlar líkur á gervigreindarvæðingu og var niðurstaðan sú að allt að 47% starfa sem til eru í dag gætu verið unnin af tölvum.Sambærileg rannsókn var unnin af ráðgjafafyrirtækinu McKinsey. Í tveggja ára rannsókn voru metin 2,000 verkefni (e. activites) sem heyra undir 800 starfsheiti. Niðurstaðan var sú að meira en helmingur verkefna sem framkvæmd eru gætu mögulega verið leyst af tölvum með notkun þess búnaðar sem nú þegar er til staðar,“ segir í greininni.
Hægt er að gerast áskrifandi að Vísbendingu, sérhæfðu riti um rekstur, efnahagsmál og nýsköpun, hér.