Margir gerðu ráð fyrir að árið 2017 yrði ár andstæðinga Evrópusambandsins og „elítunar í Evrópu“ en eftir töp í kosningum, harða andstöðu og efasemdir innan eigin raða, þá standa þeir veikir eftir.
Þetta er meðal þess sem kemur fram í ítarlegri fréttaskýringu í Wall Street Journal um stjórnmálaástandið í Evrópu um þessa mundir. Svo virðist sem andstæðingar Evrópusambandsins séu nú í sárum og sundraðir, ekki síst eftir slæma niðurstöðu kosninga í Bretlandi, þar sem Theresu May, forsætisráðherra Bretlands, tókst ekki að styrkja stöðu sína í kosningum til að fá sterkara umboð frá almenningi inn í viðræður um útgöngu Breta úr Evrópusambandinu.
Þá er einnig sérstaklega rætt um að eftir sigur Macrons í frönsku kosningunum, þá standi hægri vængurinn í stjórnmálalandslaginu, þar sem andstæðingar Evrópusambandsins hafa náð saman á undanförnum árum, veikur og sundraður eftir.
Jafnvel þó margt bendi til þess að Macron forseti muni þurfa lengri tíma til að fóta sig í stjórnmálum, eftir ævintýralegan sigur fyrr á árinu, þá er fylgi við efasemdaraddir um Evrópusambandið og Evrópusamrunann heldur að minnka, að því er fram kemur grein Wall Street Journal.
Á undanförnum vikum hefur Angela Merkel, kanslari Þýskalands, mælst með meira fylgi heldur en raunin hefur verið á undanförnum árum, og bendir margt til þess að hún fari haldi velli sem þjóðarleiðtogi Þýskalands í kosningunum 24. september.
Merkel hefur verið ötull talsmaður Evrópusambandsins og meiri samvinnu Evrópuríkja, og ef fram heldur sem horfir þá verður niðurstaðan í kosningum mikill sigur fyrir hana. Kannanir hafa að undanförnu sýnt að um 64 prósent kjósenda í Þýskalandi telja farsælasta að Merkel verði áfram kanslari. Framundan er þó spennandi mánuður í þýskum stjórnmálum, þar sem staðan getur breyst á lokasprettinum.