Mitch McConell, leiðtogi repúblikana í öldungadeild Bandaríkjaþings og lengi vel einn helsti stuðningsmaður Donalds Trumps forseta Bandaríkjanna, er sagður hafa snúist alveg gegn forsetanum og hefur efasemdir um að hann geti haldið mikið lengur áfram sem forseti.
Frá þessu greindi New York Times í nótt. Í umfjöllun blaðsins segir að McConell og Trump hafi ekki rætt saman síðan 9. ágúst en þá sauð upp úr í samskiptum þeirra á milli, í símtali, og lýsa vitni því sem löngu samtali þar sem fúkyrði flugu frá upphafi til enda.
Er Trump sagður afar óánægður með að McConell hafi ekki stutt hann, meðal annars þegar kemur að ásökunum um að Trump og nánasta bakland hans hafi verið í sambandi við Rússa í aðdraganda kosninganna í fyrra. Rannsókn stendur nú yfir á ásökunum um að Rússar hafi beitt sér bak við tjöldin, og haft áhrif á gang kosninganna, en Robert Mueller, fyrrverandi forstjóri FBI, stýrir rannsókninni.
Eiginkona McConell, Elaine L. Chao, á sæti í ríkisstjórn Trumps, og gerir sú staða málin enn flóknari, að því er segir í umfjöllun New York Times.
McConell er sagður afar óánægður með viðbrögð Trumps í kjölfar ofbeldisins í Charlottesville, þar sem meðlimir nýnasistahreyfinga víðs vegar úr Bandaríkjunum, ásamt mörgum öfgasinnuðum KKK-liðum, stóðu fyrir ofbeldisfullum aðgerðum við ríkisháskólann í Virginíu.