Fjölmiðlakonan Karen Kjartansdóttir hefur verið ráðin dagskrárgerðarmaður í Morgunútvarpinu á Rás 2. Hún mun stjórna þættinum ásamt Sigmari Guðmundssyni, samkvæmt heimildum Kjarnans.
Karen starfaði áður blaðakona á DV og Fréttablaðinu og síðar sem fréttakona og varafréttastjóri á Stöð 2 áður en hún gerðist samskiptastjóri Samtaka félaga í sjávarútvegi, SFS, árin 2013-2017. Undanfarið hefur hún svo starfað hjá ráðgjafafyrirtækinu Aton.
Nokkrar breytingar verða á skipan fólks í fréttaþáttum RÚV í vetur. Ráðning Karenar er liður í þeirri breytingu. Þau Guðrún Sóley Gestsdóttir og Aðalsteinn Kjartansson sem hafa stjórnað Morgunútvarpinu ásamt Sigmari undanfarin misseri hverfa bæði úr útvarpinu í sjónvarpið.
Guðrún Sóley verður einn dagskrárgerðarmanna í Menningunni og Aðalsteinn verður blaðamaður í nýjum fréttaskýringaþætti Kastljóssins sem sýndur verður vikulega í Sjónvarpinu. Á öðrum virkum dögum er Kastljósið nú spjallþáttur þar sem málefni hvers dags verða efst á baugi.