Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, fyrrverandi formaður Framsóknarflokksins og forsætisráðherra, segir að ef stjórnmálamenn, embættismenn, fjölmiðlar, fræðimenn og aðrir sem hafi það hlutverk að ræða lausnir, horfa til framtíðar og móta stefnu þora ekki að ræða stærstu úrlausnarefni samtímans, eins og aukin flóttamannastraum, þá séu þeir að eftirláta öfgamönnum umræðuna og lausnirnar á málinu. Þetta kemur fram í grein sem hann skrifar í Viðskiptablaðið í dag þar sem hann kallar eftir umræðu um flóttafólk.
Í henni segir Sigmundur Davíð, sem nú er þingmaður Framsóknarflokksins, að straumur flóttamanna og annars förufólks til Evrópu sé farinn að valda verulegri togstreitu innan, og á milli, Evrópulanda og að þau átök séu að ágerast. Flestir þeirra sem komi til dæmis yfir hafið frá Líbýu til Ítalíu séu ekki að flýja stríð, heldur að leita betri lífskjara. Að óbreyttu muni þeim sem leggi í slíka för fjölga jafnt og þétt samhliða því að hagur fátækustu ríkja heims muni vænkast. Fólksfjölgun muni verða gríðarleg í þróunarlöndunum á næstu áratugum og við lok yfirstandandi aldar muni 14 af 25 fjölmennustu ríkjum heims vera í Afríku, en ekkert í Evrópu.
Sagði Framsókn skorta sannfæringu í málefnum hælisleitenda
Fyrr í dag tilkynnti Sveinbjörg Birna Sveinbjörnsdóttir, oddviti Framsóknar og flugvallarvina, að hún hefði sagt sig úr Framsóknarflokknum. Í stöðuuppfærslu á Facebook sagði hún að að innan Framsóknarflokksins séu skiptar skoðanir um málefni hælisleitenda. „Flokksmenn eru hins vegar ragir við að tjá skoðanir sínar opinberlega. Af einhverjum ástæðum eru Framsóknarmenn sérstaklega viðkvæmir þegar að þessu kemur. Í huga margra þeirra jafngildir það því að ganga fyrir björg að láta í ljós raunverulega afstöðu sína í málefnum hælisleitenda. Þeir telja að þau séu svo „viðkvæm“ að þeirra eigin sannfæring skipti ekki máli! Þeir velja því að enduróma skoðanir sem þeir telja líklegar til að forða þeim frá frekari spurningum. Vandi þeirra er hins vegar sá að almenningur heyrir ágætlega. Almenningur heyrir holan hljóm. Framsóknarmenn skortir sannfæringu þegar þeir eru inntir eftir afstöðu sinni til málefna hælisleitenda.“