Sveinbjörg Birna Sveinbjörnsdóttir, oddviti Framsóknar og flugvallarvina í Reykjavík, hefur sagt skilið við Framsóknarflokkinn. Hún greinir frá þessu í stöðuuppfærslu á Facebook í dag.
Hún segir að sér hafi orðið það ljóst að undanförnu að forystu Framsóknarflokksins skorti metnað til að vinna honum fylgis á höfuðborgarsvæðinu. Stefnt sé að því að halda honum sem sérhagsmunaflokki til sveita. Slíkt hugnist henni ekki. „Stóryrtar yfirlýsingar frá forystu flokksins um ummæli mín eru hjóm eitt. Flokkur sem er ekki tilbúinn að ræða mikilvæg málefni verður aldrei annað en smáflokkur. Samleið minni með Framsóknarflokknum er nú lokið. Sjálf held ég ótrauð áfram. Það sem eftir lifir kjörtímabils mun ég starfa sem óháður borgarfulltrúi, í fullu umboði kjósenda minna, með þá sannfæringu að það sé betra að vera trúr skoðunum sínum en að eiga viðhlæjendur í Framsóknarflokknum.“
Skiptar skoðanir um málefni hælisleitenda
Í stöðuuppfærslunni segir Sveinbjörg Birna að innan Framsóknarflokksins séu skiptar skoðanir um málefni hælisleitenda. „Flokksmenn eru hins vegar ragir við að tjá skoðanir sínar opinberlega. Af einhverjum ástæðum eru Framsóknarmenn sérstaklega viðkvæmir þegar að þessu kemur. Í huga margra þeirra jafngildir það því að ganga fyrir björg að láta í ljós raunverulega afstöðu sína í málefnum hælisleitenda. Þeir telja að þau séu svo „viðkvæm“ að þeirra eigin sannfæring skipti ekki máli! Þeir velja því að enduróma skoðanir sem þeir telja líklegar til að forða þeim frá frekari spurningum. Vandi þeirra er hins vegar sá að almenningur heyrir ágætlega. Almenningur heyrir holan hljóm. Framsóknarmenn skortir sannfæringu þegar þeir eru inntir eftir afstöðu sinni til málefna hælisleitenda.“
Sagði börn hælileitenda leiða til „sokkins kostnaðar“
Sveinbjörg Birna er oddviti Framsóknarflokksins í borgarstjórn Reykjavíkur. Hún náði kjöri eftir mikla fylgisaukningu flokksins á síðustu dögum fyrir kosningarnar 2014. Sú fylgisaukning kom til eftir að Sveinbjörg Birna kom í viðtal átta dögum fyrir kosningarnar og sagði m.a. að „á meðan við erum með þjóðkirkju eigum við ekki að úthluta lóðum undir hús eins og moskur eða kirkjur fyrir grískuréttrúnaðarkirkjuna“. Í viðtali við Vísi sagðist hún hafa „búið í um eitt ár í Sádí Arabíu og byggi þessa skoðun mína ekki á fordómum, heldur reynslu.“
Sveinbjörg Birna ræddi þessi mál í viðtalinu við Útvarp Sögu í lok júlí. Þar sagði hún að stjórnmálamenn þyrftu að hugsa sinn gang verulega ef það væri þannig að þöggun ætti að ríkja um óþægilega hluti. Hún ræddi síðan málefni innflytjenda á Íslandi og meintan kostnað sem þeim fylgir. Sveinbjörg Birna nefndi engar tölur í þeim efnum en sagði að það fylgdi t.d. mikill kostnaður því fyrir grunnskóla Reykjavíkur að taka við börnum sem væru að sækja eftir hæli hérlendis. Þessi börn stoppi stutt við og hætti í skólanum ef að fjölskyldum þeirra sé vísað úr landi eftir ákveðinn tíma. „Þá er þetta að einhverju leyti sokkinn kostnaður hjá Reykjavíkurborg.“
Ummæli hennar um börn hælisleitenda hafa verið fordæmd og gagnrýnd harðlega, meðal annars innan úr Framsóknarflokknum og af forystu hans.