Þungt hljóð var í fundargestum í Stapanum í gær þar sem rætt var um málefni United Silicon og kísilverksmiðju þess í Helguvík. Á þriðja hundrað manns mættu á fundinn en Andri Snær Magnason rithöfundur var einn þeirra sem hélt tölu á fundinum.
Í viðtali við Fréttablaðið segir hann að þriðjungur gesta á fundinum hefði staðið upp, þegar borin var upp spurning um hverjir fyndu fyrir veikindum eftir að verksmiðjan hóf starfsemi. Á fundinum var samþykkt ályktun um að biðla til almannavarna að grípa til aðgerða vegna þeirrar stöðu sem upp er komin í bænum. „Fólki var mikið niðri fyrir. Margir lýstu auknum veikindum eftir að verksmiðjan kom og aðrir bentu á að ekki væri óhætt lengur að hleypa börnum út að leika,“ segir Andri Snær í viðtali við Fréttablaðið.
„Næsta skref er að hrinda af stað alþjóðlegri söfnun fyrir Félag andstæðinga stóriðju í Helguvík,“ segir Einar Már Atlason, formaður félagsins, en það stóð fyrir fundinum.
United Silicon óskaði eftir greiðslustöðvun 14. ágúst síðastliðinn, en áform eru uppi um að stöðva rektur kísilmálmverksmiðju United Silicon í Helguvík 10. september næstkomandi til að gera umbætur á búnaði hennar.
Alls hafa þrír íslenskir lífeyrissjóðir fjárfest í United Silicon fyrir 2.166 milljónir króna. Sjóðirnir sem um ræðir eru Festa lífeyrissjóður, Frjálsi lífeyrissjóðurinn og Eftirlaunasjóður félags íslenskra atvinnuflugmanna (EFÍA).
Þá hefur Arion banki hefur fært niður 16,3 prósent eignarhlut sinn í United Silicon að fullu í bókum sínum. Bankinn er auk þess með átta milljarða króna útistandandi við félagið, þar með talið lánsloforð og ábyrgðir. Niðurfærsluþörf á þeim lánum er enn óljós og háð fjárhagslegri endurskipulagningu United Silicon.