Donald Trump Bandaríkjaforseti náðaði í gær vin sinn og stuðningsmann úr forsetaframboði hans, lögreglustjórann fyrrverandi Joe Arpaio. Hann er 85 ára gamall og var lengi vel lögreglustjóri í Maricopa í Arizona ríki.
Arpaio hundsaði ítrekað tilskipun dómara um að hætta að láta þjóðvegalögregluna undir hans boðvaldi eltast sérstaklega við meinta, ólöglega innflytjendur. Til stóð að ákvarða honum refsingu í október næstkomandi, en ekki verður af því eftir náðun forsetans.
Arpaio kynnti sig oft sem „harðasta“ lögreglustjóra Bandaríkjanna, og rak hann sérstaklega harða stefnu gegn meintum ólöglegum innflytjendum, einkum frá Suður-Ameríku. Arpaio var staðinn að lögbrotum og misbeitingu valds, eins og áður sagði, og hlaut dóm fyrir en ákvörðun um refsingu átti að taka fyrir í október. Af því verður ekki eftir náðun forsetans.
Trump talaði fyrir náðun hans á stuðningsmannasamkomu í Arizona á dögunum, og lét síðan verða að því í gær. Í yfirlýsingu frá Hvíta húsinu segir að Arpaio hafi alla sína lögreglustjóratíð lagt áherslu á að verja almenning fyrir glæpahyski og ólöglegum innflytjendum. Hann sé nú 85 ára gamall og verðskuldi náðun forsetans, eftir 50 ára aðdáunarverða þjónustu við land og þjóð.
Arpaio er einnig þekktur fyrir að halda því fram að fæðingarvottorð Baracks Obama sé falsað og léta hann framkvæma sérstaka rannsókn á því, án niðurstöðu. Hann heldur því ennþá fram að Obama sé með falsað fæðingarvottorð.