Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, talar fyrir sjálfan sig þegar hann talar um ofbeldið í Charlottesville, segir Rex Tillerson, utanríkisráðherra Bandaríkjanna.
Tillerson var spurður að því hvað hvort orð Donalds Trump, sem kynþáttahatarar og nýnasistar í Bandaríkjunum hafa skilið sem hvatningu, geri starf hans erfiðara á erlendum vettvangi. „ÉG held að enginn efist um gildi amerísku þjóðarinnar eða skuldbindingu amerískra stjórnvalda og ríkisstofnana um að halda þeim gildum í heiðri,“ sagði Tillerson.
Utanríkisráðherrann var svo spurður af fréttamanni Fox news-sjónvarpsstöðvarinnar: „En hvað með gildi forsetans?“
„Forsetinn talar fyrir sjálfan sig,“ svaraði Tillerson.
Virðist standa með nýnasistum og rasistum
Donald Trump steig í pontu í kjölfar átaka milli nýnasista og mótmælenda þeirra í Charlottesville í Suður-Karólínu og sagði að „margir bæru ábyrgð“ á ofbeldinu. Ein kona lét lífið í Charlottesville, þegar maður ók bíl inn í hóp fólks sem mótmælti göngu nýnasista í borginni.
Nokkrum dögum síðar átti Trump svo í orðaskaki við fjölmiðlamenn í New York þar sem hann kynnti sýn sína á ofbeldið enn frekar: „Á einum endanum hefur þú hóp sem hegðaði sér illa og hinu megin hefur þú hóp sem var líka mjög ofbeldisfullur,“ sagði Trump og ítrekaði að í báðum hópum væri mjög slæmt fólk. Hann sagði einnig að í hópi nýnasista og öfga-hægri þjóðernissinna væru mikið af góðu fólki.
Fyrir þessi ummæli hefur fjöldi bandamanna Trumps ákveðið að fordæma eða gagnrýna forsetann og benda á farsælli leiðir fyrir Hvíta húsið til að takast á við þann vanda sem sást í Charlottesville.
Tillerson er þess vegna aðeins nýjasti meðlimurinn í hópi háttsettra embættismanna og þingmanna í Bandaríkjunum sem segja hug sinn opinberlega.