Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, segir að forysta Alþýðusambands Íslands (ASÍ) verði aldrei fyrirgefið aðgerðarleysi sitt við hagsmunagæslu almennings. Þeir sem eigi með réttu að halda uppi vörnum fyrir vinnandi fólk hafi ekki unnið vinnuna sína árum eða áratugum saman. „Kerfið og staðan sem við erum með í dag er afsprengi þess að launafólk er alið á uppgjöf og aumingjaskap forystunnar og verður henni minnst fyrir það af komandi kynslóðum þegar fram líða stundir.“
Þetta kemur fram í stöðuuppfærslu og umræðum á Facebook þar sem til umfjöllunar er ný skýrsla ASÍ um þróun skattbyrði launafólks á tímabilinu 1998 til 2016. Í skýrslunni, sem var birt í gær, kemur fram að aukningin á skattbyrði sé langmest hjá tekjulægstu hópunum, munurinn á skattbyrði tekjulægstu hópanna og þeirra tekjuhærri hafi minnkað og dregið hafi úr tekjujöfnunarhlutverki skattkerfisins. Kaupmáttaraukning síðustu ára hefur þannig síður skilað sér til launafólks með lægri tekjur en þeirra tekjuhærri vegna vaxandi skattbyrði. Skattbyrði tekjulægstu landsmanna hafi aukist úr fjögur prósent árið 1998 í 16 prósent árið 2016.
Ragnar Þór, sem stýrir stærsta stéttarfélagi landsins, deilir frétt RÚV um skýrsluna þar sem fram kemur að mánaðarlegar ráðstöfunartekjur tækjulægstu hópanna gætu verið 100 þúsund krónum meiri ef skattbyrði þeirra væri sú sama og árið 1998. Í stöðuuppfærslu spyr hann hvort ASÍ sé loks að hætta „blekkingaleiknum um kaupmátt og viðurkenna það sem almenningur hefur haldið fram um árabil? Hverjir bera ábyrgð á þessari stöðu og áratuga, algjöru, sinnuleysi gagnvart stjórnvöldum sem hafa kerfisbundið étið upp kaupmátt þeirra sem lægstar hafa tekjurnar? Forystu ASÍ verður aldrei fyrirgefið aðgerðarleysið við hagsmunagæslu almennings!“
Í ummælum við færsluna bætir Ragnar við og segir að ástæður þess að „fjármálakerfið fékk að valta yfir saklausa borgara á skítugum skónum og hirða sem mest það mátti og stjórnvöld að skattleggja þá efnaminni og millitekjuhópa þannig að kaupmáttur er vart mælanlegur eða í mínus er vegna þess að mótstaðan er engin. Af hverju erum við á lokametrunum með að koma upp einkareknu heilbrigðiskerfi á Íslandi þegar um 90% þjóðarinnar er þvi mótfallin? Vegna þess að þeir sem eiga með réttu að halda uppi vörnum fyrir vinnandi fólk eru ekki að vinna vinnuna sína og hafa ekki gert árum eða áratugum saman. Kerfið og staðan sem við erum með í dag er afsprengi þess að launafólk er alið á uppgjöf og aumingjaskap forystunar og verður henni minnst fyrir það af komandi kynslóðum þegar fram líða stundir.“