Bréf í Skeljungi hækkuðu umtalsvert í Kauphöllinni í dag. Um tíma, fyrir hádegið, nam hækkunin tæplega 17 prósentum en verðið lækkaði hins vegar þegar leið á daginn. Við lokun markaða nam hækkunin hins vegar 12,98 prósentum og gengi bréfanna var 5,92 krónur á hlut.
Bréf í Skeljungi eru þó enn umtalsvert frá því verði sem var á þeim þegar félagið var skráð á markað í desember 2016.
Gott hálfsársuppgjör
Ástæðan fyrir hækkuninni í dag var sú að félagið kynnti hálfsársuppgjör sitt í gær. Þar kom fram að hagnaður þess á fyrstu sex mánuðum ársins hafi verið 728 milljónir króna og arðsemi eigin fjár 20,5 prósent. Í fjárfestakynningu sem Skeljungur hélt sagði að árið hefði aldrei farið betur af stað í sögu félagsins. Það væri að selja aukið magn á innanlandsmarkaði og áfram væri mikil aukning í sölu flugvélaeldsneytis. Þá hafi samningur félagsins um sölu á eldsneyti til Costco, sem rekur eina stöð með tólf dælum í Garðabæ, skipt umtalsverðu máli.
Alls jókst sala á eldsneyti til bifreiða um sjö prósent miðað við sama tímabil í fyrra, sala til skipa um 20 prósent og sala á flugvélaeldsneyti um 40 prósent. Markaðshlutdeild Skeljungs á markaði fyrir flugvélabensín er nú 87 prósent. Félagið er með 42,6 prósent hlutdeild í sölu til skipa og 30,2 prósent í sölu á bensíni og dísil til bifreiða. Því blasir við að breytingar á sölu til bifreiða hefur ekki ráðandi áhrif á stöðu Skeljungs.
Skeljungur sleit í júlí viðræðum um kaup á öllu hlutafé í Basko, sem meðal annars rekur búðir undir merkjum 10-11, Iceland og Dunkin Donuts. Í fjárfestakynningunni segir að félagið ætli samt sem áður að styrkja samstarf og leita frekari tækifæra varðandi þægindavöruverslun í nánustu framtíð. Auk þess ætlar Skeljungur að halda áfram uppbyggingu fjölorkustöðva fyrir vetnis- og rafmagnsbíla og skoða frekar útvíkkun á starfsemi sinni erlendis. Gert er áfram ráð fyrir vexti í eftirspurn hérlendis í ljósi þess að spár geri ráð fyrir áframhaldandi hagvexti og aukningu í komu ferðamanna.
Markaðsvirðið upp um 1,5 milljarð í dag
Skeljungur er síðasta félagið sem skráð var á markað í Kauphöllinni. Bréf félagsins voru skráð þar í desember í fyrra. Skráningargengið var 6,9 krónur á hlut. Í gær, mánudag, fór gengi bréfanna niður í 5,24 krónur á hlut. Gengið hafði því lækkað um tæpan fjórðung frá því að útboðið átti sér stað.
Viðmælendur Kjarnans sem starfa á fjármálamarkaði segja að mikil úlfúð hafi verið á meðal fjárfesta vegna þessa. Lífeyrissjóðir, sem eiga stóran hlut í félaginu, séu til að mynda mjög óánægðir með þá þróun sem hafi átt sér stað. Sú óánægja beinist mest að Arion banka, sem seldi hlutafé í útboðinu og sá um það.
Þótt bréf í Skeljungi hafi náð sér aðeins á strik í dag í kjölfar óvænts uppgjörs er töluvert í land að virðið nái útboðsgenginu. Enn er gengi félagsins rúmlega 14 prósentum lægra en það var við skráningu.
Markaðsvirði Skeljungs er um 12,5 milljarðar króna og jókst um 1,5 milljarða króna í dag. Þegar félagið var skráð á markað var markaðsvirðið, miðað við skráningargengi, 14,5 milljarðar króna.