Orkuveita Reykjavíkur
borgaði ríflega 219 milljónir króna, meira en 400 milljónir að núvirði, fyrir útveggjakerfið umdeilda sem
virðist hafa brugðist með þeim
afleiðingum að rakaskemmdir og
mygla hafa gert vesturhús höfuðstöðva fyrirtækisins ónothæft.
Þetta kemur fram í Fréttablaðinu í dag.
Áætlað er að það muni kosta um tvo milljarða að gera nauðsynlegar úrbætur á húsinu, eins og fram hefur komið.
Vesturhús höfuðstöðva Orkuveitu Reykjavíkur er illa farið af rakasemdum og það kostar milljarða króna að gera við það. Málið var rætt á stjórnarfundi í Orkuveitunni fyrr í vikunni en ákvörðun um til hvaða aðgerða verði gripið liggur ekki fyrir. Reykjavíkurborg á 93,5 prósent hlut í Orkuveitunni.
Þar segir að sex leiðir hafi verið skoðaðar til að leysa málið. Áætlaður kostnaður þeirra er á bilinu 1.500-3.020 milljónir króna. Sá kostnaður bætist við þegar áfallinn kostnað vegna skemmdanna sem er 460 milljónir króna.
Bygging höfuðstöðva Orkuveitunnar var umdeild á sínum tíma. Í skýrslu úttektarnefndar um Orkuveituna, sem birti niðurstöður sínar í október 2012. Byggingakostnaður varð á endanum langt umfram áætlun. Upprunalega átti byggingin að kosta 2,3 milljarða króna en hún kostaði á endanum 5,3 milljarða króna á verðlagi hvers framkvæmdaárs, eða 8,5 milljarða króna á verðlagi ársins 2010.
Í úttektarskýrslu segir að hluti skýringanna fyrir auknum byggingakostnaði hafi verið rakinn til þess að um eitt þúsund fermetrar bættust við á byggingatímanum og að ekki hafi verið gert ráð fyrir ýmsum öðrum stórum liðum í áætlunum. „Þessi atriði voru ekki borin undir stjórn Orkuveitu Reykjavíkur eða um þau fjallað meðan á byggingu hússins stóð, og ekki verður séð að athygli stjórnarinnar hafi verið vakin sérstaklega á þessum atriðum á byggingartíma hússins. Svo virðist að auki sem mikill hraði hafi einkennt verkið, enda var unnið kappsamlega að því að koma rekstri fyrirtækisins undir eitt þak, og má hluta af auknum kostnaðarútgjöldum meðal annars rekja til þess[...]Ekki verður heldur fram hjá því litið að Orkuveita Reykjavíkur hefur í dag ekki þörf fyrir svo mikið húsnæði, enda stendur nú einn hluti húsnæðisins nær auður. Hér er í senn um að ræða verulegar fjárhæðir og fjárfestingu fyrirtækis í opinberri eigu, sem ekki nýtist nema að hluta til í rekstri þess. Að mati úttektarnefndarinnar hefði verið rétt að kynna stjórn framvindu byggingarinnar og áfallandi kostnað, og jafnframt hvort rétt væri að draga úr byggingarmagni eða minnka kostnað á meðan á byggingu stóð, til þess að upphaflegar áætlanir stæðust. Svo var ekki gert, og vekur það sérstaka athygli að endanlegur kostnaður vegna hússins virðist ekki hafa legið fyrir fyrr en í lok árs 2005, og að á tímanum hafi komið upp liðir sem gleymst hafi að gera ráð fyrir í hönnun verksins.“