Róbert Wessmann og viðskiptafélagar hafa eignast 88,38 prósent í fjölmiðlasamsteypunni Pressunni. Félagið á og rekur m.a. DV, DV.is, Pressuna, Bleikt.is og Eyjuna. Félög í eigu Björns Inga Hrafnssonar og Arnars Ægissonar munu áfram eiga um ellefu prósent í félaginu. Frá þessu er greint í Markaðnum, fylgiriti Fréttablaðsins um efnahagsmál og viðskipti, í dag.
Eigendur Dalsins eru Róbert Wessmann, Árni Harðarson, Halldór Kristmannsson, Hilmar Þór Kristinsson og Jóhann G. Jóhannsson. Hver þeirra á um sig á tuttugu prósenta hlut í félaginu. Dalurinn á einnig allt hlutafé í Birtingi, sem gefur út þrjú tímarit: Gestgjafann, Hús og híbýli og Vikuna.
Í Markaðnum er haft eftir Halldóri Kristmannssyni að staða Pressunnar sé þung og að fyrri stjórnendur hafi óskað eftir svigrúmi til að finna nýja hluthafa í sumar. Það hafi ekki gengið eftir. Dalurinn hafi lagt töluverða peninga inn í Vefpressuna þegar til stóð að félagið tæki þátt í hlutafjárhækkun í vor. Þeir fjármunir hafi nýst til að greiða opinber gjöld og vanskil á lífeyrissjóðs- og stéttarfélagsgreiðslum starfsmanna. Þess vegna hafi hann átt kröfu á félagið sem hægt var að breyta í hlutafé.
Kjarninn greindi frá því í maí að skuldir Pressunnar og tengdra félaga væru yfir 700 milljónir króna. Þar af eru vanskil vegna vangreiddra opinbera gjalda og vegna greiðslna í lífeyrissjóði, stéttarfélög og vegna meðlagsgreiðslna yfir 400 milljónir króna.
Í síðustu viku sagði Kjarninn frá því að félagið Útvörður ehf., sem er í eigu Þorsteins Guðnasonar, hefði stefnt Pressunni. Málið verður tekið fyrir í héraðsdómi Reykjavíkur 6. september næstkomandi. Þorsteinn vildi ekki tjá sig um málið þegar Kjarninn leitaði eftir upplýsingum um það en í ársreikningi Útvarðar sést að Pressan skuldaði Útverði 91 milljón króna í lok árs 2015.
Krafan er eina verðmæta eign Útvarðar. Hún á rætur sínar að rekja til þess að félagið veitti Pressunni seljendalán til að kaupa DV og DV.is á árinu 2014. Miðað við umfang kröfunnar hefur lítið eða ekkert verið greitt af henni síðan að til hennar var stofnað.
Í Stundinni í síðustu viku kom fram að Pressan skuldi auk þess Tollstjóra um 300 milljónir króna vegna vangoldinna opinberra gjalda. Gjaldþrotabeiðni hafi verið send inn í vor á hendur DV ehf., einu þeirra félaga sem tilheyra Pressusamstæðunni, og að sú beiðni verði brátt tekin fyrir í Héraðsdómi Reykjavíkur.