Björt Ólafsdóttir, umhverfis- og auðlindaráðherra, hefur ákveðið að auglýsa stöðu forstjóra Umhverfisstofnunar lausa til umsóknar, samkvæmt heimildum Kjarnans.
Kristínu Lindu Árnadóttur, núverandi forstjóra stofnunarinnar, hefur verið tilkynnt um þetta bréfleiðis.
Samkvæmt lögum um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna skulu þeir skipaðir tímabundið til fimm ára í senn. Kristín Linda var fyrst skipuð í starfið árið 2008 og því fer öðru ráðningartímabili hennar að ljúka. Umhverfis- og auðlindaráðherra hefur nú ákveðið að auglýsa stöðuna lausa til umsóknar og því þarf sitjandi forstjóri að sækja um hana vilji hún gegna starfinu áfram.
Þarf að tilkynna með sex mánaða fyrirvara
Æviráðningar í stjórnsýslunni voru afnumdar með nýjum lögum um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna sem tók gildi um mitt ár 1996. Í 23. grein laganna segir að embættismenn séu skipaðir í fimm ár í senn. Sá vani hefur þó verið á að ráða sitjandi forstjóra ríkisstofnana áfram án þess að störf þeirra séu auglýst vilji þeir gegn starfinu lengur.
Tilkynna þarf þeim sem situr í viðkomandi embætti um að til standi að auglýsa það laust til umsóknar sex mánuðum áður en að skipanatími rennur út. Kristínu Lindu hefur verið tilkynnt um ákvörðun ráðherra um að auglýsa starfið bréfleiðis.
Ef ráðherra tilkynnir ekki embættismanni um að staðan verði auglýst innan ofangreinds tímafrests þá framlengist skipanatími þeirra sjálfkrafa í önnur fimm ár, nema þeir óski eftir að láta af störfum.