Stærsta útgerðarfyritæki landsins, Samherji, hefur átt góðu gengi að fagna á undanförnum árum, en á árunum 2011 til og með 2016 hefur fyrirtækið hagnast um 86 milljarða króna. Hagnaðurinn í fyrra var 14,3 milljarðar króna.
Tekjur Samherja, sem er samstæða félaga sem flest starfa á sviði sjávarútvegs, hérlendis sem erlendis, námu þá um 85 milljörðum króna og var hagnaður fyrir afskriftir og fjármagnsliði um 17 milljarðar króna, að því er segir í tilkynningu frá félaginu.
Þorsteinn Már Baldvinsson, forstjóri, fagnar rekstrarafkomunni og segir hana ánægjulega. Framundan séu miklar fjárfestingar. „Það má segja að á síðasta ári hafi nýjar fjárfestingar byrjað að skila sér. Miklar endurbætur á landvinnslu ÚA á árinu 2015 tókust vel og sex ný skip voru í smíðum á vegum félagsins á árinu 2016. Þetta eru fjárfestingar sem munu leggja grunn að bættri afkomu og sveigjanleika í rekstri á komandi árum. Tvö skipanna, Kaldbakur og Björgúlfur, eru þegar komin til landsins og Cuxhaven hefur haldið til veiða í Þýskalandi. Þá munu verulegar fjárfestingar í Íslandsbleikju treysta fiskeldið," segir Þorsteinn Már í tilkynningu.
Hagnaður Samherja árið 2011 var 8,8 milljarðar, árið 2012 16 milljarðar, árið 2013 22 milljarðar, árið 2014 11 milljarðar og árið 2015 var hagnaðurinn 13,9 milljarðar króna. Eins og áður segir var hagnaðurinn í fyrra 14,3 milljarðar króna.
Þetta er langsamlega besta rekstrartímabil í sögu fyrirtækisins og má segja að fyrirtækið hafi stungið önnur sjávarútvegsfyrirtæki af, þegar kemur að stærð og fjárhagslegum styrk. Hjartað í starfseminni er á Eyjafjarðarsvæðinu, bæði á Akureyri og Dalvík.
Eiginfjárhlutfall þess var 75,7 prósent og nam eigið féð 701,9 milljónum evra, eða sem nemur 89 milljörðum króna, miðað við núverandi gengi krónu gagnvart evru.
Heildartekjur fyrirtækisins í fyrra námu um 85 milljörðum króna, en greiddur tekjuskattur og veiðigjöld námu 3,1 milljarði króna.