Fulltrúar í miðstjórn ASÍ sendu frá sér sérstaka tilkynningu vegna stöðuuppfærslu Ragnars Ingólfssonar, formanns VR, á Facebook en í henni sagði Ragnar meðal annars að Alþýðusambandið bæri höfuðábyrgð á því að skattbyrði lágtekjufólks hafi hækkað á undanförnum árum og áratugum.
Í tilkynningunni er þessu alfarið hafnað. „Miðstjórn ASÍ lýsir furðu sinni yfir þessari yfirlýsingu formanns VR við niðurstöðum rannsóknar hagdeildar ASÍ um þróun skattbyrði og vísar þessum ásökunum algerlega á bug. Alþýðusambandið og aðildarsamtök þess hafa háð langa og erfiða baráttu við stjórnvöld um þróun skattkerfisins, með skýrum kröfum um hækkun persónuafsláttar til samræmis við þróun verðlags og launa, sem og þróun bæði barnabóta og húsnæðisbóta. Hefur verið um þetta fjallað á fjölmörgum þingum ASÍ sem og þingum landssambanda og stéttarfélaga innan ASÍ.“
Þá segir ennfremur í tilkynningunni að það sé í höndum einstaka aðildarfélaga ASÍ að semja en í sumum tilfellum hafi félögin falið ASÍ umboð til þess að semja við stjórnvöld um skattamál og ýmis velferðarmál. „Með samstarfi við stéttarfélögin innan ASÍ hefur ýmislegt áunnist í glímunni við stjórnvöld. Í seinni tíð hefur þetta m.a. skilað sér með þeim hætti að persónuafsláttur var verðtryggður um mitt ár 2006 og viðbótarhækkun persónuafsláttar náðist með kjarasamningunum 2008. Samkomulag náðist einnig um verulega hækkun húsaleigubóta í maí 2008 og hækkun eignarskerðingarmarka vaxtabóta í september það ár. Í samningunum í maí 2015 náðist samkomulag um hækkun húsnæðisbóta sem kom til framkvæmda um síðustu áramót, sem og samkomulag um 30% niðurgreiðslu á stofnkostnaði á leiguíbúðum fyrir tekjulágar fjölskyldur.“
Þá er ennfremur minnst á það, að stjórnmálamenn hafi því miður ekki staðið við sitt. „Því miður er það svo, að þrátt fyrir þennan árangur hafa stjórnmálamenn oftar en ekki látið hjá líða að hækka þær viðmiðunarfjárhæðir sem gilda í skatta- og tilfærslukerfinu, þrátt fyrir ítrekaðar ábendingar ASÍ og aðildarfélaganna, sem iðulega hefur leitt til hækkandi skattbyrði lágtekjufólks. Afleiðingin er að þrátt fyrir að stéttarfélögin hafi náð miklum árangri í hækkun lægstu launa umfram almenn laun, hafa stjórnvöld skert ráðstöfunartekjur þeirra með þessu framferði. Það er langsótt og fullkomlega órökrétt að gera ASÍ ábyrgt fyrir aukinni skattbyrði lágtekjufólks. Þessi ábyrgð hvílir eingöngu hjá ríkisstjórn og Alþingi – og bera flestir stjórnmálaflokkar sameiginlega ábyrgð á þessari stöðu mála. Miðstjórn ASÍ telur framlag hagdeildar ASÍ til umræðu um skattamál og þróun ráðstöfunartekna launafólks, einkum þeirra tekjulægstu, afar mikilvægt innlegg sem gagnast mun félagsmönnum og aðildarfélögunum við undirbúning kjaraviðræðna. Miðstjórnin hvetur jafnframt til þess að Ragnar Þór, sem og aðrir forystumenn aðildarfélaga innan raða ASÍ, snúi bökum saman og beini kröfum sínum og kröftum að viðsemjendum okkar og stjórnvöldum. Saman getum við meira!“ segir í tilkynningunni.
Undir hana rita Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ, Sigurður Bessason, 1. varaforseti ASÍ, Efling-stéttarfélag, Ingibjörg Ósk Birgisdóttir, 2. varaforseti ASÍ, VR, Benóný Valur Jakobsson, VR, Bjarni Þór Sigurðsson, VR, Björn Snæbjörnsson, Eining-Iðja, Eiður Stefánsson, Félag verslunar og skrifstofufólks á Akureyri, Guðbrandur Einarsson, Verslunarmannafélag Suðurnesja, Guðmundur Ragnarsson, Félag vélstjóra og málmtæknimanna, bein aðild, Hilmar Harðarson, FIT – Félag iðn- og tæknigreina, Kristján Þórður Snæbjarnarson, Félag rafeindavirkja, Signý Jóhannesdóttir, Stéttarfélag Vesturlands, Sigurrós Kristinsdóttir, Efling,Sverrir Mar Albertsson, Afl starfsgreinafélag, og Valmundur Valmundsson, Sjómannasambandi Íslands.