Svandís Svavarsdóttir, fulltrúi Vinstri grænna í nefnd um gjaldtöku í sjávarútvegi, segir að svo virðist sem starfsemi nefndarinnar sé sjónarspil. Fyrir fram sé búið að ákveða að ekkert komi út úr henni. Vinnan snúist í raun „um að tryggja að sökin liggi annars staðar en hjá ríkisstjórnarflokkunum sjálfum sem ekki hafa leitt þessi mál til lykta með nokkru móti frekar en önnur stór mál á borði ríkisstjórnarinnar.“ Þetta kemur fram í aðsendri grein sem Svandís skrifar á Kjarnann í dag.
Svandís segir að Hanna Katrín Friðriksson, fulltrúi Viðreisnar í nefndinni, hafi lagt fram tillögu í nefndinni þar sem ekkert hafi verið fjallað um þjóðareign á fiskveiðiauðlindinni heldur byggt á þeirri nálgun að um verði að ræða samninga milli útgerðarinnar og ríkisins á einkaréttarlegum grunni. Sjálf segist Svandís telja að ekki verði undan því vikist í vinnunni að skera úr um skilning á eignarhaldinu og að festa þurfi auðlindaákvæði í sessi í stjórnarskrá.
Nefndin á að skila tillögum sínum til ráðherra í formi lagafrumvarps eigi síðar en 1. desember á þessu ári.
Bókuðu harða gagnrýni á Þorstein
Þorsteinn Pálsson, formaður nefndarinnar og áhrifamaður innan Viðreisnar, skrifaði grein í júní sem birt var á Kjarnanum. Þar sagði Þorsteinn m.a. að mesta hættan sem sé til staðar í ríkisstjórnarsamstarfi Viðreisnar og Bjartrar framtíðar við Sjálfstæðisflokkinn sé að sá síðastnefndi nái saman með Framsóknarflokknum og Vinstri grænum í því breiða samtali um nokkur höfuðmál íslenskra stjórnmála sem fram undan sé. Bæði Framsókn og Vinstri græn hafi „staðið jafn fast eða jafnvel fastar gegn kerfisbreytingum en Sjálfstæðisflokkurinn“. Flokkarnir komist ekki hjá því að svara hvert hugur þeirra stefnir í þeim efnum á næstu mánuðum eða misserum.
Segir nefndina ekki eiga að skila neinu
Svandís fjallar um grein Þorsteins í skrifum sínum í dag og sagði það vera nýlundu að „meirihlutinn kenni minnihlutanum um það þegar meirihlutinn getur ekki komið sér saman um stór mál. Ekki varð hjá því komist að svara þessari grein Þorsteins enda var engu líkara en að formaðurinn væri að reyna að koma sökinni fyrir fram á aðra flokka á því sem fyrirsjáanlegt væri, eða því að starf nefndarinnar myndi engu skila.“
Hún nefnir svo tvö dæmi sem hún telur að styðji við þá skoðun sína að starf nefndarinnar eigi ekki að skila neinu, og sé því sjónarspil. Annað er viðtal við Daða Má Kristófersson, forseta Félagsvísindastofnunar og stjórnarmann í Viðreisn, í Fiskifréttum í síðustu viku. Daði er ráðgjafi nefndarinnar, prófessor og auðlindahagfræðingur. Í viðtalinu sagði hann meðal annars að sér finnist hugmyndir manna „um umfang rentu í sjávarútvegi á Íslandi oft vera skringilega bjartsýnar.“ Veiðigjöld verði aldrei neinn meiriháttar tekjustofn fyrir ríkissjóð og muni aldrei leysa af hólmi tekjuskatta. Menn hafi því að einhverju leyti séð „töluverðum ofsjónum yfir hagnaði í sjávarútvegi.“
Svandís vitnar líka í viðtal við Harald Benediktsson, þingmann Sjálfstæðisflokksins og formann fjárlaganefndar, í liðinni viku. Þar sagði Haraldur að lækka ætti veiðigjöld strax í haust. „Þannig eru stóru átakalínurnar inni í ríkisstjórninni sjálfri og vandséð að nefnd Þorsteins Pálssonar geti stigið skref til breytinga,“ skrifar Svandís.