Bændasamtök Íslands og Landssamtök sauðfjárbænda segja tillögur stjórnvalda vegna erfiðleika sauðfjárbænda, sem kynntar voru opinberlega í dag, séu á ábyrgð Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra. Ekki sé um að ræða samkomulag stjórnvalda við bændur og samtökin telja þær ekki leysa vanda sauðfjárbænda að fullu þó þær séu í rétta átt. „Bændur hafa lagt fram tillögur til stjórnvalda sem miða að því að taka heildstætt á þeim vanda sem við blasir. Lykilatriði í þeim lausnum er að virkja tímabundnar aðgerðir til sveiflujöfnunar, svo sem að gera afurðastöðvum kleift að taka sameiginlega ábyrgð á útflutningi kindakjöts. Þær hugmyndir hafa ekki fengið brautargengi og staðan því óbreytt. Hættan er sú að þær aðgerðir sem landbúnaðarráðherra nú leggur til séu ekki nægar og verði aðeins til þess að draga ástandið á langinn. “ Þetta kemur fram í sameiginlegri yfirlýsingu sem samtökin hafa sent frá sér.
Þar segir einnig að samkomulag sé um að flýta endurskoðun sauðfjárhluta búvörusamninga og að stefnt sé að því að niðurstaða hennar liggi fyrir 1. apríl á næsta ári. „Í þeirri vinnu þarf að ræða áfram þau mál sem ekki eru leyst og eins meta árangur af þeim aðgerðum sem ráðist verður í núna.“
Kjarninn greindi frá því í morgun að tillögur stjórnvalda vegna yfirstandandi erfiðleika í sauðfjárrækt muni kosta ríkissjóð um 650 milljónir króna, komi þær til framkvæmda. Samkvæmt þeim verður gripið til umfangsmikilla aðgerða til að draga úr framleiðslu kindakjöts og fækka um leið fé um 20 prósent. Þeir bændur sem hætta sauðfjárframleiðslu munu geta haldið 90 prósent af greiðslum samkvæmt sauðfjársamningi í fimm ár og gripið verður til sértækra aðgerða til að draga úr yfirvofandi kjaraskerðingu bænda.
Á móti verður þess krafist að búvörusamningur sauðfjárbænda, sem var undirritaður í fyrra og gildir til tíu ára, verði endurskoðaður.