Húsnæðiskerfið gerir ekki ráð fyrir hærra húsnæðisverði og hærri vaxtagjöldum, að því er fram kemur í rannsókn hagdeildar ASÍ. Hlutfall einhleypra fasteignaeigenda með húsnæðislán sem fá vaxtabætur er komið niður í 28 prósent, miðað við 69 prósent árið 2009.
„Fólk sem er að koma inn á húsnæðismarkaðinn hefur því þurft að skuldsetja sig meira en vaxtabótakerfið hefur ekki fylgt þeirri þróun og gerir ekki ráð fyrir hærra húsnæðisverði og hærri vaxtagjöldum,“ segir í frétt á vef ASÍ.
Kjarninn greindi frá því í síðasta mánuði að vaxtabætur hafa samtals lækkað um 7,7 milljarða króna síðan árið 2010 og þeim fjölskyldum sem fá þær hefur fækkað um rúmlega 30 þúsund á saman tíma. Á sama tíma og sífellt færri fá vaxtabætur vegna íbúðarhúsnæðis þá hafa fasteignagjöld, sem sveitarfélög leggja á, hækkað um 50 prósent vegna gríðarlegra hækkana á húsnæðisverði. Samandregið hafa því bótagreiðslur til húsnæðiseigenda hríðlækkað og skattar á húsnæðiseigendur hækkað umtalsvert.
Vaxtabætur sem hlutfall af launum einstæðra foreldra með laun við neðri fjórðungsmörk, sem skulda 80 prósent í 100 fermetra íbúð, eru orðnar að engu. Árið 2009 var hlutfallið 16 prósent og árið 1998 var það 12 prósent.
„Laun hafa hækkað en á sama tíma hafa skerðingar vegna tekna aukist í vaxtabótakerfinu og vaxtabæturnar sjálfar hafa ekki fylgt launaþróun heldur staðið í stað,“ segir enn fremur á vef ASÍ. Í tilfellinu þar sem hlutfall vaxtabóta af launum er orðið 0 prósent er fyrst og fremst um að kenna eignaskerðingu, að mati ASÍ, „því kerfið í dag tekur ekki tillit til hækkandi húsnæðisverðs og gerir ekki ráð fyrir að einstæðir foreldrar þurfi stærra húsnæði en þeir sem búa einir.“
„Óhætt er að tala um eðlisbreytingu á kerfinu,“ segir ASÍ sem hefur mótmælt stefnu ríkisstjórnarinnar um einföldun á húsnæðisstuðningskerfinu og fækkun þeirra sem eiga rétt á vaxtabótum. ASÍ segir þetta grafa undan félagslegum stöðugleika með ófyrirséðum afleiðingum fyrir kjarasamninga á vinnumarkaði.