Ísland sigraði Úkraínu með tveimur mörkum gegn engu á Laugardalsvelli í kvöld. Gylfi Sigurðsson, langdýrasti knattspyrnumaður Íslandssögunnar, skoraði bæði mörkin í síðari hálfleik. Liðið lék einn sinn besta hálfleik í sögunni í síðari hálfleik í kvöld og skapaði sér hvert færið á fætur öðru.
Ísland var í þriðja sæti riðilsins fyrir leikinn, stigi á eftir Úkraínu og þremur á eftir Króatíu sem lék á sama tíma úti gegn Tyrkjum. Liðið átti einungis tvo leiki eftir að þessum loknum, gegn Kosóvó og Tyrkjum, og því var algjörlega nauðsynlegt að vinna til að halda drauminum um að spila á HM í Rússlandi næsta sumar lifandi. Ísland hafði ekki tapað á heimavelli í rúm fjögur ár, frá 7. júní 2013, og það átti alls ekkert að verða nein breyting þar á í kvöld.
Tvær breytingar voru gerðar á liði Íslands. Kári Árnason var látinn víkja úr vörninni fyrir Sverri Inga Ingason og Jón Daði Böðvarsson tók stöðu Alfreðs Finnbogasonar í sókninni. Ísland virtist vera að spila 4-4-2 með Gylfa Sigurðsson í framherjastöðu við hlið Jóns Daða. Það var breyting frá Finnaleiknum, og leiknum fræga gegn Króatíu, þar sem liðið spilaði mestmegnis 4-5-1. Marco Van Basten, einn besti evrópski framherji sem spilað hefur (fyrir utan Tony Cottee), var mættur í heiðursstúkuna. Og fyrir framan hana stóð Andriy Shevchenko, stórkostlegur framherji. Það var notarlegt að sitja á milli þeirra.
Fyrstu mínúturnar voru mestu lætin við þann enda „einu sinni nýju“ stúkunnar, þeirrar sem er nær Valbjarnarvelli, en í horni hennar, því sem er nær Laugardalslaug, voru stuðningsmenn Úkraínu geymdir. Þar voru líka tugir lögreglumanna enda höfðu fundist steinar og hnífar á stuðningsmönnum Úkraínumanna við leit á þeim fyrir leikinn. í byrjun leiks mátti sjá lögreglumenn hlaupa fram og til baka við hlið stúkunnar án þess að það væri sýnilegt að þeir væru í einhverjum eiginlegum erindagjörðum.
Á níundu mínútu leiksins sýndi Jón Daði Böðvarsson ástæðuna fyrir því að hann er valinn í byrjunarlið landsliðsins þegar hann djöflaðist upp kantinn og átti frábæra lága fyrirgjöf inn í teiginn sem Birkir Bjarnason fékk á silfurfati en gat ekki skilað annað en fram hjá. Úkraínumenn brunuðu upp og áttu strax fínt færi, en boltinn endaði á hlaupabrautinni.
Á 22. mínútu kom næsta dauðafæri. Boltinn barst á Gylfa á fjærstöng sem var staðsettur á markteig, tók hann niður og kom sér í betra skotfæri í stað þess að skjóta í fyrsta, en varnarmaður komst fyrir skotið.
Það var áhugavert að sjá löngu innköst íslenska liðsins, sem eru fyrir löngu orðin hálfgert vörumerki fyrir fallega ljóta fótboltann sem liðið spilar. Síðastliðinn ár hefur kerfið ítrekað verið það að Aron Einar Gunnarsson, fyrirliði og fyrrverandi handboltaskytta, grýtir boltanum inn á nærstöngina þar sem Kári Árnason var mættur til að flikka honum áfram. Í dag var enginn Kári til staðar og enginn annar tók upp stöðuna hans þegar Ísland fékk innköst. Þess í stað komu hlaup utan að velli inn í teiginn þegar Aron kastaði, sem skiluðu litlu.
Á 41. mínútu datt annar línuvörðurinn. Það var í lagi með hann, þannig að það var í lagi að hlægja.
Samandregið frekar dapur fyrri hálfleikur, þrátt fyrir tvö dauðafæri. Vörnin traust, Aron Einar mjög góður en Gylfi að mestu týndur og kantmennirnir slakir.
Seinni hálfleikur
Það verður ekki sagt að seinni hálfleikurinn hafi byrjað rólega. Ísland komst upp vinstra megin, Emil Hallfreðsson kom honum fyrir, Jóhann Berg Guðmundsson keyrði á markmann Úkraínu og boltinn einhvern veginn féll fyrir Gylfa Sigurðsson sem þurfti bara að stýra honum óáreittur í markið af nokkurra metra færi. Eitt-núll og Úkraínumennirnir brjálaðir þar sem þeir vildu fá dæmt brot á Jóhann Berg. Allt eins og það átti að vera.
Ef einhver átti von á því að þetta myndi kveikja í slöku liði Úkraínu þá varð sá fyrir sárum vonbrigðum. Ísland átti leikinn næstu mínútur og skapaði nokkrar hættulegar stöður. Birkir Bjarnason leit allt í einu út fyrir að vera eins og Ryan Giggs. En auðvitað með miklu síðara hár.
Emil Hallfreðsson braut heimskulega af sér á 53. mínútu á stað sem var mjög svipaður þeim og Finnar skoruðu frá í síðasta leik. Skotið úr aukaspyrnunni var fast en beint á Hannes Þór Halldórsson sem boxaði það í burtu.
Flott uppspil með hælsendingum og „overlappi“ á hægri kantinum skilaði því að Birkir Már Sævarsson fékk sirka fimm tilraunir til að koma boltanum fyrir á 57. mínútu. Á endanum barst hann út fyrir teiginn þar sem boltinn var lagður fyrir Emil Hallfreðsson sem var óralangt frá því að hitta á markið úr tilraun sinni. Það verður samt sem áður að segjast að Emil var frábær lengst af í síðari hálfleiknum. Vann ítrekað boltann, skilaði honum frábærlega frá sér og skapaði hættulegar sóknarstöður. Á 63. mínútu kom hann boltanum á Gylfa í opnu svæði á miðjum vallarhelmingi Úkraínu, sem sendi til hliðar á Jóhann Berg. Hann kom sér í skotstöðu skammt fyrir utan vítateiginn en skotið hafnaði í utanverðri stönginni.
Annað markið kom á 65. mínútu og var stórkostlegt. Frábært uppspil, hnitmiðuð sending frá Jóhanni Berg inn fyrir, Emil klofaði yfir hana og hún endaði hjá Jóni Daða inni í teignum, hann lagði hann fyrir Gylfa sem afgreiddi boltann í fyrsta í hægra hornið.
Og þetta var ekkert hætt. Frábær fyrirgjöf frá Birki Bjarnasyni á 68. mínútu lenti á kollinum á Birni Bergmann Sigurðarsyni, sem var nýkominn inn á fyrir Jón Daða, en skallinn fór rétt yfir.
Íslenska liðið var svo gott á þessum kafla að lögreglan þétti raðirnar fyrir framan úkraínsku stuðningsmennina. Svona til að vera klár ef það yrði eitthvað vesen.
Og á 75. mínútu bárust þau tíðindi að Tyrkir væru komnir yfir gegn Króatíu. Yrðu það lokatölur þá væri staðan sú í riðlinum að Ísland og Króatía væru í efstu tveimur sætunum með 16 stig, en Tyrkir og Úkraína í næstu tveimur með 14. Og tvær umferðir eftir þar sem Ísland myndi m.a. spila við Tyrki úti og Úkraína og Króatía myndu mætast í Kænugarði.
Hörður Björgvin Magnússon fékk sendingu á fjærstöngina eftir aukaspyrnu á 77. mínútu sem er gjörsamlega óskiljanlegt að hann skilaði ekki í autt markið fyrir framan sig. Ísland skipti Ólafi Inga Skúlasyni og Alfreð Finnbogasyni inn á í rusltíma til að drepa sekúndur undir lokin. Gylfi Sigurðsson fékk heiðursskiptingu og allt varð vitlaust á vellinum. Eftir þrjár viðbótarmínútur var loks flautað af. Enn ein frábær frammistaða Íslands á heimavelli staðreynd.
Stórkostlegur leikur hjá öllu íslenska liðinu, sérstaklega í síðari hálfleik. Það er líkast til besti hálfleikur sem íslenska karlalandsliðið hefur nokkru sinni leikið.