Inga Sæland, formaður Flokks fólksins, segir að núverandi meirihluti í Reykjavíkurborg hafi tekið hælisleitendur fram yfir fjölskyldur sem búi í borginni þegar kemur að húsnæðismálum. Hún segist fyrst og síðast vilja taka á þessum aðstæðum „þannig að uppfylla þær skyldur sveitarfélagsins að ala önn fyrir þeim borgurum sem eru hér fyrir. Það er algjörlega síðasta sort að hér skuli jafnvel vera mæður sem þora ekki að leita til félagsþjónustunnar af því að þeim er aðallega boðið að koma sér fyrir á gistiheimili og að taka börnin þeirra og setja þau í fóstur. Ég segi, númer eitt,tvö og þrjú verðum við að taka utan um hjartað í samfélaginu sem er fjölskyldan og styðja það með ráðum og dáðum eins og lögbundið er.“
Þetta kom fram í viðtali við Ingu á Útvarpi Sögu í gær.
Þar segir hún einnig að hælisleitendum væri mismunað á kostnað eldri borgara. Eldri borgarar hefðu ekki ráð á því að leita sér læknishjálpar á sama tíma og hælisleitendur fái fría tannlæknaþjónustu. „Er það ekki mismunum þegar einir fá en aðrir ekki? Er þá verið að etja saman?“, spurði Inga.
Segist ekki etja hópum saman en að þeim sé mismunað
Inga hefur verið legið undir ámæli fyrir að etja saman annars vegar eldri borgurum og öryrkjum og hins vegar hælisleitendum. Þar hefur sérstaklega verið vísað í pistil sem hún skrifaði á Facebook-síðu Flokks fólksins 24. febrúar síðastliðinn, en eyddi síðar.
Þar sagði m.a.: „Í þessu ofsaveðri búa einhverjir meðbræður okkar í hjólhýsum í Laugardalnum og enn aðrir eru algjörlega án nokkurs skjóls. Þetta eru þeir sem eru efnahagslegir flóttamenn í eigin landi, fátækastir í orðsins fyllstu merkingu og eiga virkilega bágt.“ Síðan spurði Inga hvort að það væri ásættanlegt að staðan væri svona á meðan að hælisleitendur flykktust sem aldrei fyrr til landsins. Í færslunni sagði hún einnig: „„Hælisleitendur sem fordæmin sýna að munu ekki fá hæli hér. Hælisleytendur sem hafa frían leigubíl, ( vilja frekar taka leigubíl en nota strætó ) Bónuskort, debetkort ( með inneign frá ísl. ríkinu ) fría læknisþjónustu, húsnæði, tannlækni, sálfræðing, og fl. og fl.“ Að lokum varpaði hún fram þeirri spurningu hvort ekki mætti nýta það fjármagn sem færi í að „halda uppi þessu fólki“ í það að „huga að okkar eigin bræðrum sem býa hér við bág og algjörlega óviðunandi kjör?“
Inga hefur hins vegar margsinnis vísað því á bug að hún etji saman hælisleitendum við aðra þjóðfélagshópa hérlendis. Það gerði hún til að mynda í viðtali við DV í síðasta mánuði.
Inga ræddi það í viðtalinu við Útvarp Sögu og sagðist aftur ekki vera að etja hópum saman, heldur væri hún að tala um mismunun. „Ég skil ekki tilhneiginguna að segja að verið sé að etja saman hópum [...]þetta heitir klárlega mismunun. Það er verið að mismuna eldri borgurum sem eru hættir að vinna[...]er verið að etja saman þjóðfélagshópum, annars vegar[...]eldri borgurum á Íslandi, sem hafa greitt hér skatta og skyldur alla sína tíð og hafa ekki ráð á því einu sinni að leita sér hjálpar, læknisfræðilegrar hjálpar, er verið að etja saman hópum við annan hóp sem eru hælisleitendur sem eru að koma frá öruggu landi, millilenda hér í X-langan tíma en eru síðan sendir heim, en geta verið í fríum tannlæknaþjónustum á kostnað akkúrat þess borgara? Kallast þetta að etja saman? Ef við sjáum og vitum að sömu krónunni verður ekki eytt tvisvar? [...]Er það ekki mismunum þegar einir fá en aðrir ekki? Er þá verið að etja saman?“
Myndi fá sjö þingmenn
Flokkur fólksins er það stjórnmálaafl sem hefur verið að mælast með mesta fylgisaukningu á undanförnum vikum. Í síðasta Þjóðarpúlsi Gallup, sem var gerður opinber um helgina, kom til dæmis fram að stuðningur við flokkinn mældist 10,6 prósent. Það er nánast sama fylgi og Framsóknarflokkurinn mælist með og meira fylgi en Samfylkingin, Viðreisn og Björt framtíð mælast með. Yrði þetta niðurstaða kosninga myndi Flokkur fólksins fá sjö þingmenn. Flokkurinn fékk 3,5 prósent atkvæða í síðustu kosningum og sá árangur tryggði honum fjárframlög úr ríkissjóði. Næst verður kosið árið 2020 nema að boðað verði til kosninga fyrir þann tíma.
Flokkur fólksins ætlar að bjóða fram í sveitarstjórnarkosningum næsta vor og Inga hefur þegar tilkynnt að hún ætli að vera oddviti flokksins í Reykjavík. Í viðtalinu við Útvarp Sögu fjallaði hún um nokkur málefni sem heyra undir sveitarstjórnarstigið. Þar sagðist hún vera ósammála hugmyndum um Borgarlínu, lokun neyðarbrautar Reykjavíkurflugvallar, skóla- og leikskólastefnu borgarinnar og þeirri húsnæðisstefnu sem sé þar rekin.
Líkti sér við Marie Le Pen
Í byrjun ágúst sagði Inga í samtali við fréttastofu RÚV að hún væri sátt við að vera kölluð popúlisti. „Ég hef ákveðið að taka jákvæða pólinn í hæðina og segja, ja popúlisti er bara svona einhver svakalega vinsæll. En ég veit náttúrulega hvað hugtakið er útbreitt fyrir. Ég er sennilega svona Marine Le Pen týpa sem er verið að mála mig af þeim sem munu hvort sem er aldrei kjósa flokkinn. Af okkur stafar ógn vegna þess að við erum boðberi breytinga. Við erum einlæg og heiðarleg og við vinnum af hugsjón og við ætlum að halda því áfram og við erum bara sátt við að vera popúlistar. Ég ætla að segja að það þýði bara það að vera vinsæll í dag.“
Marine Le Pen er fyrrverandi formaður frönsku Þjóðfylkingarinnar (f. Front National) og var forsetaframbjóðandi hennar fyrr á þessu ári. Þar náði hún í aðra umferð en tapaði fyrir Emmanuel Macron. Í kosningabaráttunni lagði Le Pen áherslu á að vilja takmarka fjölda innflytjenda sem Frakkland tæki á móti og sagðist ætla að halda þjóðaratkvæðagreiðslu um framtíð Frakklands í Evrópusambandinu.
Inga vakti líka athygli fyrir grein sem hún skrifaði í Morgunblaðið í júní, í kjölfar þess að sérsveit lögreglunnar hafði verið vopnuð á nokkrum viðburðum sem haldnir voru í Reykjavík. Í greininni sagði hún að Íslendingar þyrftu að viðurkenna þá ógn sem fylgjendur öfga-íslams bera með sér. Að forðast þá umræðu væri hrein og klár og afneitun. „Sérsveit lögreglunnar undir alvæpni sýnir sig á almannafæri og það án þess að hættustig sé aukið opinberlega. Hvað vita þeir sem við vitum ekki? Hvers vegna vill enginn taka umræðuna um ástandið í Evrópu og þá staðreynd að Ísland tilheyrir henni, þótt enginn hafi verið sprengdur eða myrtur hér í hryðjuverkaárás enn sem komið er? Það er kominn tími til að taka umræðuna og löngu kominn tími til að taka á árásum þeirra samlanda okkar sem vilja og munu kalla okkur öllum illum nöfnum. Þeirra sömu og vilja breiða út faðminn og bjarga öllum heiminum.“ Mikilvægt væri að fella sig ekki á bak við „rétttrúnaðarkenningar“ og treysta því að hryðjuverkaógnin komi ekki til Íslands.