Aðeins nokkrum dögum eftir að fellibylurinn Harvey gekk á land yfir Houston í Texas hefur nýr fellibylur orðið til og gengið á land. Það er fellibylurinn Irma sem ógnar byggð í og við Karíbahaf.
Irma er þegar orðin að fimmta stigs fellibyl og er kraftmesti fellibylur sem orðið hefur til á Atlantshafi síðan mælingar hófust. Vindhraði bylsins hefur náð meira en 70 metrum á sekúndu, en þær mælingar náðust áður en stormurinn eyðilagði mælitæki veðurfræðinga.
Til þess að setja slíkan vindhraða í samhengi við íslenskan raunveruleika þá er efsta stig vindhraðaflokkunar Veðurstofu Íslands 30 metrar á sekúndu. Slíkur vindhraði er kallað stórviðri og mælst er til þess að fólk sé ekki á ferli. Í gamla vindstigakerfinu hraðari vindur en 32,7 metrar á sekúndu kallaður fárviðri.
Stormurinn gekk á land á karabískum eyjum í gær og heldur áfram í átt að Flórída, þar sem Irma mun ná landi um helgina. Leið stormsins er eftir Barbados-eyjum, yfir Dóminíska lýðveldið, við norðurströnd Kúbu áður en hann tekur stefnuna norður frá Kúbu yfir að Flórída í Bandaríkjunum.
Stormurinn hefur þegar ollið miklu tjóni í byggðu bóli. Fréttastofa Reuters greinir frá því að átta hafi farist í storminum á Saint Martin í nótt. Storminum fylgdi einnig mikil eyðilegging og flóð. Fulltrúi bæjarráðsins á Saint Martin segir 95 prósent af öllu hafa eyðilagst.
Fylgstu með ferðum Irmu
Á eftir Irmu kemur annar stormur sem hefur fengið nafnið Jose. Ekki er búist við að leið hans liggi um byggð ból eins og leið Irmu. Jose er þegar orðinn að fyrsta stigs fellibyl undan ströndum Suður-Ameríku. Jose má sjá á kortinu hér að ofan, merktur styrkleika sínum.
Sést vel úr geimnum
Stór bylur á borð við Irmu sést vel út um glugga Alþjóðlegu geimstöðvarinnar sem sveimar umhverfis jörðina. Þessar myndir birtust á vef bandarísku geimvísindastofnunarinnar í vikunni.
Hvernig verða fellibyljir til?
Fellibylur verður aðeins til við sérstakar aðstæður í náttúrunni. Fellibylur verður aðeins til yfir haffleti þar sem hafið er meira en 26 gráðu heitt og þar sem andrúmsloftið verður hratt kalt eftir því sem ofar dregur.
Kraftur fellibylsins verður til við uppstreymi lofts. Uppstreymið verður til vegna þess að hlýja loftið yfir haffletinum stígur og kólnar hratt, með þeim afleiðingum að það fellur aftur, en hlýnar þegar það kemst aftur nærri haffletinum.
Kraftur fellibylja fer yfirleitt minnkandi þegar þeir nálgast land eða ganga á land. Þá er orkubúið í hafinu ekki lengur til staðar til að knýja hringrásina. Fellibyljir eru flokkaðir eftir styrk í fimm flokka.
Flokkun fellibylja
Stig | Þrýstingur í auga | Vindhraði | Flóðbylgja | Tjón |
---|---|---|---|---|
1 | yfir 980 mb | 38-49 m/s | undir 1,5 m | lítið |
2 | 965-979 mb | 49-57 m/s | 1,5 til 2,5 | allmikið |
3 | 945-964 mb | 57-69 m/s | 2,5 til 3,5 | mikið |
4 | 920-944mb | 67-80 m/s | 3,5 til 5,5 | mjög mikið |
5 | undir 920 mb | yfir 80 m/s | yfir 5,5 | fádæma mikið |
Búast má við tíðari fellibyljum
Miðað við spár vísindamanna og þá þróun sem þegar hefur orðið á loftslagi jarðar, þá má gera ráð fyrir að fellibyljir verði tíðari í framtíðinni. Ekki nóg með að þeir verði tíðari heldur má einnig gera ráð fyrir að þeir verði kraftmeiri.
Ástæðan er að höfin eru að hitna og eins og útskýrt var hér að ofan þá eru þau orkubúr fyrir ofsaveður af þessu tægi.