Frjálsi lífeyrissjóðurinn, sem fjárfesti 1.178 milljónum króna í United Silicon, hefur færð niður virði þeirra hlutabréfa og skuldabréfa sem sjóðurinn á í fyrirtækinu um 90 prósent. Um varúðarniðurfærslu er að ræða, og nemur hún rúmum milljarði króna. Sömu sögu er að segja af Eftirlaunasjóði félags íslenskra atvinnuflugmanna (EFÍA). Þar nemur niðurfærslan einnig 90 prósentum. Þetta er haft eftir Arnaldi Loftssyni, framkvæmdastjóra Frjálsa lífeyrissjóðsins, í Markaðnum, fylgiriti Fréttablaðsins um efnahagsmál og viðskipti, í dag. Þar kemur einnig fram að fjárfestingin skiptist jafnt á milli skuldabréfa og hlutabréfa í United Silicon og að öll viðskiptin hafi verið framkvæmd eftir ráðgjöf Arion banka.
Markaðurinn greinir líka frá því að stjórnendur Kaupþings, stærsta eiganda Arion banka, vilji fá svör um hversu mikið þurfi að afskrifa af átta milljarða króna lánum hans til United Silicon áður en að hlutafjárútboð í Arion banka, sem er fyrirhugað í haust, fer fram. Arion banki hefur þegar afskrifað allt hlutafé í United Silicon, sem var metið á einn milljarð króna. Alls átti bankinn 16,3 prósent í fyrirtækinu.
Í greiðslustöðvun
United Silicon rekur kísilmálmverksmiðju í Helguvík. Félagið óskaði eftir greiðslustöðvun 14. ágúst síðastliðinn. Ástæðan eru erfiðleikar í rekstri kísilmálmverksmiðjunni sem hóf framleiðslu í nóvember 2016, og rekja má til síendurtekinna bilana í búnaði sem hafa valdið félaginu miklu tjóni. Nýfallinn gerðardómur í deilu félagsins við ÍAV hf. eykur enn á óvissu félagsins. Samkvæmt honum þarf United Silicon að greiða ÍAV um einn milljarð króna. Greiðslustöðvun fyrirtækisins var framlengd í vikunni og gildir nú fram í desember.
Á meðal hluthafa og lánveitenda þess eru Arion banki og íslenskir lífeyrissjóðir. Alls nam fjárfesting lífeyrissjóða í verkefninu um 2,2 milljörðum króna. Þar af fjárfestu þrír lífeyrissjóðir sem eru í stýringu hjá Arion banka í verkefninu fyrir .1375 milljónir króna. Frjálsi lífeyrissjóðurinn lagði til langstærstan hluta þeirrar upphæðar, eða 1.178 milljónir króna. Hinir tveir sjóðirnir eru Eftirlaunasjóður félags íslenskra atvinnuflugmanna (EFÍA) og Lífeyrissjóð starfsmanna Búnaðarbanka Íslands (LSBÍ). Arion banki rekur alla sjóðina þrjá, starfsfólk bankans gegnir stjórnunarstöðum í þeim og þeir eru til húsa í höfuðstöðvum hans í Borgartúni.
Líkt og kemur fram hér að ofan var ráðist í fjárfestinguna eftir ráðleggingar frá Arion banka.
Stýrt af starfsmanni Arion banka
Í yfirlýsingu sem EFÍA birti á heimasíðu sinni í ágúst kom fram að heildarfjárfesting hans í verkefninu væri 112,9 milljónir króna. Líkt og með aðrar sérhæfðar fjárfestingar hafi það verið stjórn sjóðsins sem tók ákvörðun um hana „að undangenginni ítarlegri greiningu sérfræðinga Arion Banka.“ Framkvæmdastjóri sjóðsins er starfsmaður Arion banka.
Fjórði sjóðurinn sem lagði United Silicon til fé var Festa lífeyrissjóður. Festa lagði félaginu til 875 milljónir króna í hlutafé og skuldabréfalán. Sjóðurinn hefur nú færð niður 3,5 prósenta eignarhlut sjóðsins í United Silicon að fullu.
Kjarninn hefur óskað eftir því að fá hluthafalista United Silicon afhentan en ekki fengið.