Olíufélagið N1 fer fram á að greiða lægra verð en tæplega 38 milljarða fyrir allt hlutafé Festar, næsta stærsta smásölufélags landsins, eins og gert var ráð fyrir í kaupsamkomulagi sem var undirritað í júní. Tilkynnt var um samkomulagið til kauphallar.
Þar vegur þyngst að afkoma Krónunnar á undanförnum mánuðum hefur verið nokkuð undir áætlunum. Þetta kemur fram í Markaðnum í dag, og á forsíðu Fréttablaðsins, en ekki kemur fram hversu mikinn afslátt félagið vill fá.
Ef af verður yrði um að ræða einn stærsta samruna á íslenskum smálsölumarkaði í seinni tíð.
Stjórnendur N1 vísa til þess „að í samningunum séu leiðréttingarákvæði sem kveði á um að kaupverðið skuli taka breytingum reynist afkoma félaganna ekki í samræmi við helstu skilmála kaupsamkomulagsins“ eins og orðrétt segir í frétt Markaðarins.
Búist er við því að hagnaðarsamdráttur verði um 10 prósent, miðað við þær forsendur sem lágu tilgrundvallar þegar tilkynnt var um samkomulagið til kauphallar.
Þegar tilkynnt var um kaup N1 á öllu hlutafé Festar, sem rekur meðal annars verslanir undir merkjum Krónunnar og Elko, var reiknað með því að hagnaðurinn yrði ríflega 2,1 milljarður króna, samkvæmt tilkynningu til kaupahallar.
Eftir innkomu Costco á markað, fyrr á árinu, þá hefur hins vegar orðið samdráttur hjá Krónunni, en heldur meiri verslun hefur verið í Elko en reiknað var með.
Markaðsvirði N1 er nú 27,8 milljarðar króna, en stærstu eigendurnir eru Lífeyrissjóður verslunarmanna með 13,3 prósent hlut og Gildi lífeyrissjóður með 9,22 prósent hlut.