Inga Sæland, formaður Flokks fólksins, segir pólitíska andstæðinga sína snúa út úr orðum sínum um hælisleitendur. Það sé ekkert í stefnu Flokks fólksins sem sé ómannúðlegt. Hún hrósar Sigríði Andersen dómsmálaráðherra fyrir að hafa hraðað málsmeðferð hælisleitenda og fagnar nýrri reglugerð, sem tók gildi um síðustu mánaðamót, sem fellir meðal annars niður þjónustu við hælisleitendur frá öruggum upprunaríkjum þegar ákvörðun um synjun umsóknar liggur fyrir, ef umsóknin er „bersýnilega tilhæfulaus“.
Í reglugerðinni segir einnig að útlendingur eigi „ekki rétt á framfærslufé eftir að hann dregur umsókn sína um alþjóðlega vernd til baka eða þegar framkvæmdarhæf ákvörðun um synjun liggur fyrir.“ Þetta kom fram í viðtali við Ingu í Silfrinu á RÚV í dag.
Leigubílar og tannlæknar
Þar var Inga spurð út í ummæli sín um að ekki væri hægt að eyða sömu krónunni tvisvar og af hverju hún hefði valið að nota hælisleitendur sem dæmi um málaflokk sem óþarfa peningum hefði verið eytt í.
Inga svaraði því til að um væri að ræða ummæli sem hefðu verið á Facebook síðu hennar í rúmar tvær mínútur áður en að hún hefði áttað sig á að þau væru óheppilega orðuð. Þau hafi pólitískir andstæðingar hennar nýtt sér, enda sé hræðsla vegna mikils fylgis Flokks fólksins í könnunum, en hann mælist með 10,6 prósent fylgi í síðustu Gallup-könnun. „Það er ekkert í Flokki fólksins sem er ómannúlegt,“ sagði Inga.
Í færslunni sagði hún orðrétt: „Hælisleitendur sem fordæmin sýna að munu ekki fá hæli hér. Hælisleitendur sem hafa frían leigubíl, (vilja frekar taka leigubíl en nota strætó) Bónuskort, debetkort (með inneign frá ísl. ríkinu) fría læknisþjónustu, húsnæði, tannlækni, sálfræðing, og fl. og fl.“
Inga hefur hins vegar látið sambærileg ummæli falla á öðrum vettvangi og nýlegar. Hún sagði í viðtali við Útvarp Sögu í liðinni viku að núverandi meirihluti í Reykjavíkurborg hafi tekið hælisleitendur fram yfir fjölskyldur sem búi í borginni þegar kemur að húsnæðismálum. Hún sagðist fyrst og síðast vilja taka á þessum aðstæðum „þannig að uppfylla þær skyldur sveitarfélagsins að ala önn fyrir þeim borgurum sem eru hér fyrir. Það er algjörlega síðasta sort að hér skuli jafnvel vera mæður sem þora ekki að leita til félagsþjónustunnar af því að þeim er aðallega boðið að koma sér fyrir á gistiheimili og að taka börnin þeirra og setja þau í fóstur. Ég segi, númer eitt,tvö og þrjú verðum við að taka utan um hjartað í samfélaginu sem er fjölskyldan og styðja það með ráðum og dáðum eins og lögbundið er.“
Þar sagði hún einnig að hælisleitendum væri mismunað á kostnað eldri borgara. Eldri borgarar hefðu ekki ráð á því að leita sér læknishjálpar á sama tíma og hælisleitendur fái fría tannlæknaþjónustu. „Er það ekki mismunum þegar einir fá en aðrir ekki? Er þá verið að etja saman?[...]„Hælisleitendur sem fordæmin sýna að munu ekki fá hæli hér. Hælisleitendur sem hafa frían leigubíl, ( vilja frekar taka leigubíl en nota strætó ) Bónuskort, debetkort ( með inneign frá ísl. ríkinu ) fría læknisþjónustu, húsnæði, tannlækni, sálfræðing, og fl. og fl.“
Brynhildur Bolladóttir, upplýsingafulltrúi Rauða krossins á Íslandi, skrifaði grein á Kjarnann í kjölfarið þar sem hún upplýsti um að tannlæknaþjónusta hælisleitenda fælist í því að annað hvort væri tennur dregnar út eða þeim væru boðin verkjalyf. Börn á meðal hælisleitenda fengu í undantekningartilvikum að láta gera við tennur ef þau veru með tannpínu. Hælisleitendum stæði ekki til boða frír leigubíl nema þar sem um alvarleg veikindi hafi verið að ræða, en ekki svo alvarleg að sjúkrabíl þyrfti til. Og þau búsetuúrræði sem stæðu hælisleitendum til boða væru „þannig að um 100 manns búa saman, um 30 herbergi á gangi sem 2-3 deila eða jafnvel heil fjölskylda saman í herbergi, sem er hvorki stórt né íburðarmikið.“
Hafnar Borgarlinu og vill mislæg gatnamót
Inga sagði að húsnæðismál yrðu mjög ofarlega á baugi hjá Flokki fólksins í komandi sveitarstjórnarkosningum, þar sem hún mun að öllum líkindum vera oddviti flokksins í Reykjavík. Það þyrfti að eyða biðlistum eftir félagslegu húsnæði, en rúmlega eitt þúsund manns bíða eftir slíku í Reykjavík sem er þó það sveitarfélag sem býður upp á langflestar félagslegar íbúðir, bæði að rauntölu og hlutfallslega.
Inga vill bregðast við húsnæðisvandanum með stóraukinni uppbyggingu í efri byggðum Reykjavíkur og gagnrýnir harðlega þéttingu byggðar. Hún nefndi uppbyggingu Breiðholtsins og verkamannabústaðakerfið sem dæmi um fyrirmyndir í þessum efnum.
Aðspurð um hvernig hún ætlaði að fjármagna þessi umfangsmiklu verkefni þá nefndi hún sérstaklega að hætta ætti við Borgarlínu, sem myndi kosta tíu sinnum meira en að koma gatnakerfinu í viðunandi horf með mislægum gatnamótum og öðrum viðhaldsframkvæmdum. Áætlað er að Borgarlínan muni kosta allt að 70 milljarða króna og að sá kostnaður muni dreifast á öll sveitarfélög höfuðborgarsvæðisins. Inga sagði í Silfrinu að kostnaðurinn við að koma vegakerfinu í borginni „í lag“ væri 10-12 milljarðar króna.
Inga sagði einnig að lífeyrissjóðir og ríkissjóður ættu að taka þátt í kostnaði við uppbyggingu á nýju félagslegu húsnæði.