Aðeins 13 fráveitur á öllu landinu höfðu viðunandi skolphreinsun árið 2014, af þeim 83 sem áttu að hafa hana. Þetta kemur fram í stöðuskýrslu Umhverfisstofnunar um frárennslismál á Íslandi.
Í skýrslunni segir jafnframt að upplýsingar og gögn skortir um stöðu og tilhögun frárennslismála á Íslandi. Það helgast af lélegum skilum upplýsinga frá eftirlitsaðilum. Umhverfisstofnun, sem tekur við gögnunum og vinnur stöðuskýrslur fyrir allt landið, setur þess vegna fyrirvara um þær ályktanir sem dregnar eru í skýrslunni vegna gæða gagnanna.
Lang mest skolp fellur til á höfuðborgarsvæðinu. 60% alls skolps á landinu sem varð til árið 2014 var hreinsað í hreinsistöðvum sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu við Ánanaust og Klettagarða. Þar eru starfræktar fyrsta þreps hreinsunarstöðvar. Í skýrslu umhverfisstofnunar segir að hreinsunin þar „uppfyllir að öllum líkindum ekki þær kröfur sem gerðar eru til eins þreps hreinsunar í reglugerð um fráveitur og skolp.“ Þetta sé hins vegar skilgreiningaratriði. Ítarlegar er fjallað um það í skýrslunni.
Í sumar komust skolpmál í Reykjavík í hámæli þegar neyðarloki í skolphreinsistöð borgarinnar bilaði með þeim afleiðingum að mikið magn óhreinsaðs skolps flæddi út í hafið við Faxaskjól í Reykjavík. Í fréttum var haft eftir Hólmfríði Sigurðardóttur, umhverfisstjóra Orkuveitu Reykjavíkur, að þetta væri lengsta og alvarlegasta bilun sem orðið hefur á skolphreinsikerfinu frá upphafi.
Í skýrslu Umhverfisstofnunar sem birt var í dag kemur fram að aðeins 13 fráveitur höfðu viðunandi hreinsun af þeim 83 sem ættu að hafa hana miðað við gögnin frá árinu 2014. Viðunandi hreinsun er ákveðin í starfsleyfi. Viðunandi hreinsun skolps er hreinsun með viðurkenndum hreinsibúnaði í samræmi við ákvæði reglugerðar um fráveitur og skolp svo gæðamarkmiðum sé náð.
Skýrsluhöfundar telja hins vegar að „fremur litlu hafi verið áorkað í fráveitu málum síðan síðasta stöðuskýrslan var gefin út árið 2010 og mikið vantað upp á að ákvæði reglugerðar um fráveitur og skolp væri uppfyllt. Það fyrirkomulag sem stuðst er við í dag hefur ekki skilað þeim tilætlaða árangri sem krafist er í lögum og reglugerðum.“
Umhverfisstofnun leggur til eftirfarandi úrræði til úrbóta.
Meðal þeirra úrbóta sem lagðar eru til
- Skýra þarf ábyrgðarskiptingu milli sveitarfélaga, fyrirtækja, heimila og eftirlitsaðila. „M.a. þarf að skýra hvort og þá hvernig þvingunarúrræðum verði beitt gagnvart þeim sveitarfélögum sem ekki uppfylla sínar lagalegu skyldur. [...] Tryggja þarf einnig að viðkomandi aðilar geti staðið undir ábyrgð sinni samkvæmt lögum og reglugerðum.“
- Gera þarf heildstæða aðgerðaáætlun, samkvæmt lögum um stjórn vatnamála.
- Mikilvægt er að koma skolphreinsun í stærri þéttbýlum í viðunandi horf sem fyrst enda runnu síðustu frestirnir út í lok árs 2005.
- Frekari og ítarlegri gagnasöfnun um fráveitumál væri æskilegt að koma upp.
- Átak verði gert í því að fá sveitarfélög til að sækja um starfsleyfi fyrir fráveitum og að starfsleyfishafar sinni innra eftirliti.