Aðgengi almennings að fjárhagsupplýsingum ríkisins hefur verið bætt með því að vefurinn opnirreikningar.is hefur verið tekin í gagnið. Á honum er hægt að skoða yfirlit yfir greidda reikninga úr bókhaldi ráðuneyta nálægt rauntíma. Vefurinn er uppfærður mánaðarlega og fyrsti birtingarmánuðurinn er ágúst 2017. Gert er ráð fyrir að stofnanir í A-hluta ríkissjóðs komi inn í verkefnið í áföngum. Þegar verkefnið verður að fullu komið til framkvæmda nemur heildarumfang upplýsinga á vefnum um 45 milljörðum króna á ári.
Í frétt á vef stjórnarráðsins segir: „Þá er unnið að því að birta mánaðarlegt bókhald ríkisins, ráðuneyta og stofnana með skýrum og myndrænum hætti. Með þeirri birtingu verður hægt að skoða gjöld og tekjur út frá ráðuneytum, stofnunum eða málefnasviðum, allt niður á einstök verkefni. Hægt verður að skoða raunútgjöld og bera saman við áætluð útgjöld í fjárlögum ársins. Er sú birting aukin þjónusta við almenning frá því að ríkisreikningur.is var opnaður árið 2014, en þar er birt sundurliðun á tekjum og gjöldum ríkisins eftir árum og nær birtingin aftur til ársins 2004.“
Átti að opna í mars
Ríkisstjórnin greindi frá því í byrjun febrúar að hún ætlaði að stórbæta aðgengi almennings að fjárhagsupplýsingum ríkisins, og myndi stíga stórt skref í þá átt um miðjan mars þegar vefurinn opnirreikningar.is yrði opnaður. Þar yrði hægt að nálgast greiðsluupplýsingar um tvö hundruð stofnana.
Í tilkynningu sagði:„Á vefnum munu árlega birtast á bilinu 300-400 þúsund reikningar vegna kaupa ríkisins á vörum og þjónustu. Hægt verður að leita að reikningum á vefnum með ýmsum leiðum, t.d. út frá stofnunum eða tegund kostnaðar. Á vefnum verða ennfremur birt skönnuð fylgiskjöl með reikningum, en með því gengur Ísland lengra en önnur ríki sem hafa unnið svipuð verkefni. Sérstaklega hefur verið hugað að öryggismálum og sjónarmiðum um persónuvernd og sérstakar síur koma í veg fyrir að viðkvæmar persónuupplýsingar birtist, svo sem vegna læknisheimsókna, bóta eða launa.“