Ný skýrsla um hlutverk Reykjavíkurflugvallar í öryggiskerfi landsins var kynnt í dag og skilað til Jóns Gunnarssonar, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra. Skýrsluhöfundur er Þorgeir Pálsson, fyrrverandi flugmálastjóri og prófessor emeritus við HR.
Niðurstaða skýrslunnar er í stuttu máli að Reykjavíkurflugvöllur eigi að vera í Vatnsmýri þar til búið er að ganga úr skugga um að hægt sé að byggja nýja flugvöll sem geti tekið við hlutverki Reykjavíkurflugvallar sem varaflugvöllur á Íslandi. Enn sé óvissa um að ákjósanlegasti kosturinn í þeim efnum – í Hvassahrauni – henti sem flugvallarstæði.
Samgönguráðherra hefur einnig skipað nefnd og falið henni að finna ásættanlega lausn á framtíð Reykjavíkurflugvallar. Í aðalskipulagi Reykjavíkur er gert ráð fyrir að flugvöllurinn verði farin úr Vatnsmýri árið 2024 og að þar rísi blönduð byggð íbúða, verslunar og þjónustu.
Skýrslan er gerð af Þorgeiri að beiðni Jóns Gunnarssonar, sem í febrúar óskaði eftir úttekt, skilgreiningu og mati á því öryggishlutverki sem Reykjavíkurflugvöllur gegnir. Einnig var óskað eftir mati á því hversu vel aðrar staðsetningar flugvallar fyrir höfuðborgarsvæðið myndu uppfylla þetta hlutverk.
Um öryggishlutverk Reykjavíkurflugvallar segir að að „öryggi þjóðfélagsins og flugöryggi gera það að verkum að tveir flugvellir verði að vera á Suðvesturlandi“.
Þorgeir segir í skýrslunni að aðeins einn kostur komi til greina sem nýtt flugvallarstæði í þessum efnum. Það sé Hvassahraun en að enn eigi eftir að gera umhverfismat vegna framkvæmda þar og rannsaka hversu vel það svæði henti raunverulega fyrir flugvöll.
Annars er það niðurstaða Þorgeirs að flugvöllur í Hvassahrauni geti sinnt því hlutverki sem Reykjavíkurflugvöllur sinnir nú, mjög vel og jafnvel betur en völlurinn í Vatnsmýri. Hvassaraun henti betur fyrir þær stóru flugvélar sem íslensk flugfélög noti í auknum mæli, enda verði hægt að tryggja lengd flugbrauta þar betur.
Skýrslan um öryggishlutverkið fjallar einnig um að óviðunandi sé að ekki sé flugbraut í suðvestur/norðaustur á suðvesturhorni landsins. Neyðarbrautin svokallaða á Reykjavíkurflugvelli var í þeirri stefnu, en henni var lokað í fyrra. Önnur flugbraut í þeirri stefnu er í Keflavík en henni var lokað á tíunda áratug síðustu aldar. Til tals hefur komið að opna flugbrautina í Keflavík, en ekki hefur enn orðið af því.
Nefnd
Jón Gunnarsson hefur skipað nefnd sem skal finna ásættanlega lausn á framtíð Reykjavíkurflugvallar. Hreinn Loftsson hæstaréttarlögmaður verður formaður þeirrar nefndar. Aðrir í nefndinni eru Dagur B. Eggertsson borgarstjóri, Eyrún Ingibjörg Sigþórsdóttir, fyrrverandi sveitarstjóri á Tálknafirði, Róbert Guðfinnsson, athafnamaður á Siglufirði og Linda Gunnarsdóttir flugstjóri.
Jón hefur sagst vera reiðubúinn til þess að hefja viðræður um framtíð flugvallarins, ef þær umræður taki mið af eftirfarandi skilyrðum:
- „Flugvellir á suðvesturhorni landsins þurfa að uppfylla skilyrði um að allir landsmenn komist til og frá höfuðborgarsvæðinu innan 3,5 klst ferðatíma. Þjónustan verði sambærileg við núverandi flugvöll er varðar getu og afköst.
- Af öryggissjónarmiðum þurfa tveir flugvellir sem þjónað geta millilandaflugi með góðu móti að vera á suðvesturhorni landsins.
- Stjórnvöld geta ekki skuldbundið sig við dagsetningar til þess að opna nýjan flugvöll fyrr en staðsetning og hönnun liggur fyrir og að öll skilyrði um þjónustu flugvallarins og fjármögnun af fjárlögum eru uppfyllt.
- Flugvellir á suðvestur hluta landsins þurfa að uppfylla skyldur öryggishlutverks gagnvart íbúum landsins, þar með talið almannavarnarhlutverks, leitar- og björgunar og sjúkraflugs. Jafnframt er mikilvægt að góð aðstaða fyrir kennslu- og þjálfunarflugs séu á slíkum flugvelli.“