Harpa tapaði 669 milljónum króna í fyrra og versnaði afkoman um 129 milljónir milli ára. Þrátt fyrir þessa niðurstöðu er það mat stjórnar og stjórnenda, að rekstrargrundvöllurinn til framtíðar hafi batnað mikið.
Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Hörpu. ,,Eins og fram kemur í ársuppgjöri ársins 2016 var taprekstur samstæðunnar um 670 mkr. Þetta eru gríðarleg vonbrigði og skrifast á nokkra þætti í móðurfélaginu, m.a. háan útleigukostnað, háan rekstrarkostnað fasteignarinnar og alltof há fasteignagjöld,“ segir Guðfinna Bjarnadóttir, fráfarandi formaður stjórnar.
Í ársreikningi kemur fram að tekjur af starfseminni hafi aukist um 215 milljónir króna milli ára eða um 21 prósent. Tekjur vegna útleigu fyrir tónlistarviðburði og aðrar skemmtanir, svo sem árshátíðir og fundi, eru þar vegamiklar, en þær hækkuðu um 180 milljónir króna milli ára og voru 778 milljónir. „Þar vógu tekjur af ráðstefnum þyngst eða 25%, þá af listviðburðum eða 19% og vegna fastra leigjenda þ.e. Sinfóníuhljómsveitar Íslands og Íslensku óperunnar 14%. Með sérstöku framlagi eigenda til rekstrar sem námu 13% af tekjum voru heildartekjur samstæðunnar alls 1.472 milljónir. Rekstrargjöldin uxu hins vegar enn meira eða um 319 milljónir. Af því hækkaði húsnæðiskostnaður um 88 milljónir Launakostnaður hækkaði um 50 milljónir eða um 11% á milli ára og er það á pari við meðaltalið í þróun launavísitölu á þessu tímabili. Hjá samstæðunni voru 117 á launaskrá í 52 stöðugildum og fjölgaði stöðugildum um 3 á milli ára,“ segir í tilkynningunni.
Eignirnar eru metnar á rúmlega 20 milljarða, en sérstaklega er vikið að því í tilkynningu að Harpan skili miklum verðmætum inn í þjóðarbúið í formi blómlegrar menningarstarfsemi og starfsemi sem skapi gjaldeyristekjur fyrir þjóðarbúið.
Eitt af því sem hefur verið mikið deilumál, er hvernig skuli meta fasteignagjöld Hörpunnar. Í tilkynningu frá Höpunni segir að nú sé þess beðið að Þjóðskrá endurmeti fasteignamat vegna ársins 2016. „Hæstiréttur dæmdi í fasteignagjaldamáli Hörpu þann 25. febrúar 2016 og talið var að dómurinn myndi leiða til umtalsverðrar lækkunar fasteignagjalda, jafnvel í kring um 50%. Í meðförum Þjóðskrár, sem skilaði niðurstöðum sínum átta mánuðum síðar, var útfærslan önnur en dómur Hæstaréttar sagði til um. Niðurstöðu Þjóðskrár var andmælt af hálfu Hörpu og kom svo svar aftur frá Þjóðskrá í lok árs um að niðurstaðan myndi standa. Stjórn Hörpu áfrýjaði niðurstöðu Þjóðskrár til yfirfasteignamatsnefndar í janúar 2017 3 sem skilaði sínum úrskurði 31. ágúst sl. um einu og hálfu ári eftir að dómurinn féll í Hæstarétti. Yfirfasteignamatsnefnd hafnar því að nota megi sértækan svæðisstuðul fyrir Hörpusvæðið. Þetta gæti þó breyst til framtíðar þegar svæðið byggist upp. Ekki er fallist á rök Hörpu um ofmat á tónleika- og ráðstefnusölunum – sem eru metnir fjórfalt verðmætari en verslunar- og skrifstofuhúsnæði né heldur um virði bílastæða sem Harpa taldi verulega ofmetin af Þjóðskrá. Með úrskurði sínum felldi yfirfasteignamatsnefnd fasteignamatið frá 2016 úr gildi og Þjóðskrá falið að vinna nýtt mat. Málið er því aftur komið í hendur Þjóðskrár og óvíst er með framvindu þess og þar með endanlega niðurstöðu og áhrif á rekstur Hörpu,“ segir í tilkynningunni.
Nokkrar breytingar urðu á stjórn Hörpu þar sem Guðfinna S. Bjarnadóttir, Ásta Möller og
Kjartan Örn Ólafsson hafa látið af störfum. Ný stjórn var kjörin á fundinum en í henni sitja Arna
Schram, Árni Geir Pálsson, Birna Hafstein, Vilhjálmur Egilsson og Þórður Sverrisson sem
tekur við sem formaður stjórnar.
Ríkið á 54 prósent hlut í Hörpunni, á móti 46 prósent hlut Reykjavíkurborgar.