Frjáls fjölmiðlun hefur ráðið Karl Garðarsson, fyrrverandi þingmann Framsóknarflokksins, sem framkvæmdastjóra. Karl leiddi lista Framsóknarflokksins í Reykjavíkurkjördæmi norður í kosningunum í fyrrahaust en náði ekki kjöri. Frjáls fjölmiðlun keypti í síðustu viku fjölmiðlanna Pressusamstæðunnar: DV, DV.is, Eyjuna, Pressuna, Bleikt, Birtu, Doktor.is, 433.is og sjónvarpsstöðina ÍNN. Karl mun bera ábyrgð á daglegum rekstri allra miðla Frjálsrar fjölmiðunar.
Samkvæmt tilkynningu var kaupverðið fyrir þessa miðla Pressunnar á sjötta hundrað milljónir króna. Greitt var fyrir miðlanna með reiðufé auk yfirtöku skulda. Ekki hefur verið opinberað hverjir eigendur Frjálsrar fjölmiðlunar en lögmaðurinn Sigurður G. Guðjónsson er forsvarsmaður þess.
Miðlarnir voru keyptir af félaginu Pressunni en og hluti skulda hennar voru skildar eftir þar. Fjármunirnir sem greiddir voru fyrir miðlana voru m.a. notaðir til að greiða upp opinber gjöld sem voru í vanskilum við tollstjóra. Sú skuld hljóp á hundruð milljónum króna. Tollstjórinn í Reykjavík hafði lagt fram gjaldþrotabeiðni á hendur Pressunni fyrir héraðsdómi vegna þess og átti að taka hana fyrir í síðustu viku. Sú beiðni var afturkölluð eftir að Sigurður greiddi þá skuld sem var forsenda hennar.
Í frétt á Eyjunni, sem tilheyrir nú Frjálsri fjölmiðlun, segir að stefnt sé að því að efla starfsemi félagsins á næstu misserum. Um Karl segir að hann hafi: „tæplega aldarfjórðungs starfsreynslu í íslenskum fjölmiðlum. Þannig var hann einn af fyrstu fréttamönnum Bylgjunnar og síðar fréttamaður og fréttastjóri Stöðvar 2 um árabil. Hann var síðan framkvæmdastjóri rekstrarsvið Norðurljósa.
Þá var Karl einn stofnenda, framkvæmdastjóri og ritstjóri Blaðsins/24 stunda, sem síðar var selt til Árvakurs hf. Hann var útgáfustjóri prentmiðla Árvakurs um tíma. Karl var alþingismaður árin 2013-2016 og formaður Íslandsdeildar Evrópuráðsþingsins á sama tíma.“
Þetta verður ekki í fyrsta sinn sem Karl og Sigurður G. Guðjónsson vinna saman. Árið 2005 stofnuðu þeir fríblaðið Blaðið saman sem stefnt var í samkeppni við Fréttablaðið á fríblaðamarkaði. Þeir seldu það síðar til Árvakurs og Blaðið breyttist í 24 stundir. Það var fyrsti fjölmiðillinn sem lagður var niður eftir hrunið, en útgáfu 24 stunda var hætt í neyðarlagavikunni. Sigurður var einnig forstjóri Norðurljósa, sem síðar urðu 365 miðlar, þegar Karl var fréttastjóri fréttastofu Stöðvar 2 á árunum 2002-2004.