Ríkislögreglustjóri vill láta fresta ákvörðun um að senda feðginin Abrahim og Haniye úr landi.
Til stendur að senda hina ellefu ára gömlu Haniye Maleki úr landi á fimmtudag ásamt föður sínum.
Þeim var tilkynnt um þetta á fundi með stoðdeild ríkislögreglustjóra í húskynnum Útlendingastofnunar í morgun, en þau verða send til Þýskalands. Ástæða þess að möguleiki er á frestun er sú að Ríkislögreglustjóri telur formgalla hafa verið á birtingarvottorði gagnvart Abrahim og Haniye og hefur farið fram á frestun, en Útlendingastofnun hefur ekki tekið afstöðu til málsins.
Sigríður Andersen dómsmálaráðherra sagði um helgina að ákvörðun um brottvísun stúlknanna yrði ekki endurskoðuð. Það kæmi ekki til greina. Í samtali við RÚV sagði hún: „Nei, það kemur ekki til greina að endurskoða mál sem dúkka hérna tilviljanakennt upp í umræðunni. Það kemur ekki til greina af minni hálfu sem ráðherra að taka fram fyrir hendurnar á sjálfstæðri stjórnsýslustofnun eins og kærunefnd í málum sem hafa fengið tvöfalda málsmeðferð hér á landi,“ sagði Sigríður.
Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar, hefur sent bréf til dómsmálaráðuneytisins, Útlendingastofnunar, kærunefndar útlendingamála og alþjóðadeildar Ríkislögreglustjóra þar sem hann óskar eftir því að ákvörðun um að vísa Haniye Maleki og Abrahim Maleki úr landi verði ekki framkvæmd á fimmtudag líkt og stendur til. Ástæðan er sú að hann, og aðrir þingmenn, ætla að leggja fram frumvarp um að veita þeim feðginum ríkisborgararétt um leið og Alþingi verður sett á morgun, 12. september.
Logi segir í stöðuuppfærslu á Facebook að það sé „eðlilegt og mannúðlegt að þau verði ekki flutt úr landi fyrr en alþingi, sem hefur heimild að lögum til veitingu ríkisborgararéttar, hefur fjallað um málið. Þá væri með brottvísun þeirra nú brotið gegn meðalhófi. Nefna má að fordæmi er fyrir því að Alþingi veiti ríkisborgararétt með skjótum hætti, t.d. þegar Bobby Fischer fékk ríkisborgararétt árið 2005. Þá afgreiddi Alþingi málið á innan við sólarhring.