Það liggur beint við að huga að breytingu á stjórnarskrá Íslands vegna nýlegra álitamála um stjórnskipulega stöðu forsetans, sagði Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, í þingsetningarræðu sinni á Alþingi í dag.
Guðni hvatti þingheim til þess að taka þátt í því verkefni sem ríkisstjórnin hefði sett sér um að taka stjórnarskrá Íslands til endurskoðunar. Guðni stakk upp á því að nota tilefni aldarafmælis íslensks fullveldis á næsta ári til þess að innleiða breytingar á grunnlögum lýðveldisins.
Forsetinn benti á háværar raddir um að tími væri kominn til þess að koma umhverfisvernd, þjóðareign á auðlindum og þjóðaratkvæðagreiðslur, svo dæmi séu nefnd. „Auk þess hafa stjórnmálaleiðtogar, stjórnspekingar og fleiri margsinnis viðurkennt – ekki síst á þessari öld – að í stjórnarskrá okkar þurfi að draga upp skýrari mynd af ríkjandi stjórnarfari.“
Þá vill Guðni áréttað sé að ráðherrar fari með æðsta framkvæmdavald og að nefnt verði berum orðum hvert hlutverk forseta Íslands sé í raun í stjórnarskránni. „Í þeim efnum má meðal annars huga að atbeina við stjórnarmyndanir, þingrofi og skipun í ýmis embætti. Loks varðar miklu að völd og ábyrgð fari saman,“ sagði Guðni. „Stjórnarskrárbundið ábyrgðarleysi forseta sem felur samt í sér staðfestingu á ákvörðun annarra samræmist ekki réttarvitund fólks og á ekki heima í stjórnsýslu samtímans.“
Hann sagði ábyrgð sína mikla eftir að hafa verið kjörinn forseti. Ábyrgðin væri gagnvart kjósendum og að það væri skylda sín „að færa mál til betri vegar þegar því verður við komið. Sú er raunin núna. Við óbreytt ástand verður ekki unað. Eftir óbreyttu verklagi verður ekki unnið.“
Mikilvægt að læra af reynslunni
„Fyrr í sumar brugðust fjölmargir ókvæða við þegar kynferðisbrotamenn fengu uppreist æru eftir afplánun dóms. Engu skipti að stuðst var við lög og ríka hefð um framkvæmdina,“ sagði Guðni. „Þetta skipti engu, vegna þess að lagahugtakið uppreist æru þykir úrelt og villandi. Löngu er tímabært það heyri sögunni til.“
Guðni lagði benti hins vegar á að þeir sem hefðu hlotið dóm ættu að vissulega að „feta lífsins göngu þrátt fyrir þær þjáningar sem þeir ollu öðrum, eftir annari slóð en fyrr“.
Forsetinn sagði það skynsamlegt að endurheimt ýmissa réttinda væri skilyrt og takmörkuð í lögum í takti við það afbrot sem framið var.
„Við verðum að læra af biturri reynslu,“ sagði forsetinn.