Þingflokkar Samfylkingar, Vinstri grænna og Pírata standa í heild að baki frumvarps sem felur í sér að komið yrði í veg fyrir að senda stúlkurnar Haniye og Mary, ásamt fjölskyldum þeirra, úr landi. Frumvarpið hefur verið sent inn til Alþingis til framlagningar og Samfylkingin hefur farið fram á að það verði forgangsmál sitt á komandi þingi, og fái þar með efnislega meðferð sem fyrst. Í því felst að stúlkurnar og fjölskyldur þeirra fái íslenskan ríkisborgararétt.
Heimildir Kjarnans herma að þingflokkur Viðreisnar, og að minnsta kosti hluti þeirra fjögurra þingmanna sem sitja á þingi fyrir Bjarta framtíð, muni styðja frumvarpið þótt að þeir standi ekki að framlagningu þess, komi það til atkvæðagreiðslu.
Auk þess hefur Kjarninn heimildir fyrir því að þingmenn Framsóknarflokksins muni hafa algjörlega frjálsar hendur til að styðja frumvarpið kjósi þeir svo, og þar sé mikill vilji til að grípa inn í þá atburðarás að vísa stúlkunum og fjölskyldum þeirra úr landi.
Þar með er meirihluti fyrir frumvarpinu á þingi. Einungis þingflokkur Sjálfstæðisflokksins myndi standa heill gegn því, og standa þar með við bakið á dómsmálaráðherra sem hefur lagst gegn sértækri lausn á máli stúlknanna.
Reyna að setja saman almenna lausn
Vegna þessa er búist við útspili frá ríkisstjórninni sem geri það að verkum að frumvarpið þurfi ekki að ná fram að ganga. Það útspil á að snúast um almennari nálgun á stöðu barna á meðal hælisleitenda en ná samt til þeirra Hanyie og Mary.
Sú leið er í samræmi við útspil Bjartrar framtíðar í málinu. Þingflokkur Bjartar framtíðar, sem situr í ríkisstjórn, tilkynnti í gær að hann ætlaði að leggja fram frumvarp um breytingu á lögum um útlendinga. Í tilkynningu frá honum segir að breytingartillögurnar muni „ snúa fyrst og fremst að stöðu barna og fólks í viðkvæmri stöðu, sem eins og fram hefur komið að undanförnu eru ákvæði sem þarf að skýra. Útlendingalögin eru umfangsmikil löggjöf og legið hefur fyrir frá samþykkt breytinga á þeim að lögin verða að vera lifandi plagg, ekki síst gagnvart þeim málaflokkum sem eru í hraðri þróun, líkt og málefni flóttafólks og umsækjenda um alþjóðlega vernd.“
Búið að fresta brottvísun
Sigríður Andersen dómsmálaráðherra sagði um helgina að ákvörðun um brottvísun stúlknanna yrði ekki endurskoðuð. Það kæmi ekki til greina. Í samtali við RÚV sagði hún: „Nei, það kemur ekki til greina að endurskoða mál sem dúkka hérna tilviljanakennt upp í umræðunni. Það kemur ekki til greina af minni hálfu sem ráðherra að taka fram fyrir hendurnar á sjálfstæðri stjórnsýslustofnun eins og kærunefnd í málum sem hafa fengið tvöfalda málsmeðferð hér á landi.“
Í byrjun viku var svo greint frá því að Haniye og föður hennar hefði verið tilkynnt um að þeim yrði vísað úr landi á fimmtudag. Kjarninn greindi frá því í gærkvöldi að Ríkislögreglustjóri vilji láta fresta þeirri ákvörðun vegna formgalla á birtingarvottorði.
Sigríður sagði svo við mbl.is í dag að brottvísun þeirra verði líklega frestað fram eftir septembermánuði. Hún sagði þar einnig að það væri örugglega „eitthvað sem er ástæða til að skerpa á varðandi þessi mál almennt í framtíðinni.“