Frans páfi hefur gagnrýnt þá sem telja loftslagsbreytingar ekki eiga sér stað. Páfi segir að sagan muni dæma þá sem grípa ekki í taumana til þess að stemma stigu við hlýnun jarðar og útblæstri gróðurhúsalofttegunda.
Frá þessu er greint á vef AP fréttastofunnar.
Páfi var spurður út í afstöðu sína til loftslagsbreytinga í tengslum við fellibyljina sem lagt hafa borgir og bæi við Mexíkóflóa í rúst á undanförnum vikum. Frans páfi var á ferð frá Kólumbíu í Suður-Ameríku á sunnudag og átti eftir að fljúga yfir þau svæði sem verst hafa orðið úti.
„Þeir sem hafna þessu verða að fara til vísindamanna og ræða við þá. Vísindamennirnir tala mjög skýrt,“ sagði Frans páfi og bætti við að vísindamenn hafi þegar útlistað hvað það er sem þurfi að gerast svo hægt sé að tempra áhrif loftslagsbreytinga. Einstaklingar og stjórnmálamenn hafa, að sögn páfa, „siðferðislega skyldu“ um að leggja sitt af mörkum.
„Þetta eru ekki skoðanir sem gripnar eru úr lausu lofti. Þær eru mjög skýrar. Leiðtogar ríkja munu ákveða hvað verður gert og sagan mun dæma þær ákvarðanir,“ sagði Páfi.
Frans páfi hefur áður látið til sín taka í tengslum við loftslagsmál og náttúruvernd. Hann hefur skrifað heilt umburðarbréf um það hvernig fátækir líði mest fyrir breytingum í loftslagi jarðar og aukinni sókn í auðlindir jarðar.
„Óskynugur er hvör sá maður án þekkingar,“ sagði Frans páfi og vitnaði í Gamla testamentið. Hann beindi orðum sínum að til þeirra sem efast um loftslagsbreytingar eða frestað viðbragði við þeim.