Dómsmálaráðuneytið segir að af þeim 32 einstaklingum sem hafi fengið uppreist æru frá árinu 1995 hafi 14 fengið hana innan fimm ára frá því að afplánun þeirra á fangelsisdómum lauk. Hinir sóttu um uppreist æru eftir að fimm ár höfðu liðið frá afplánun refsinga. „Engum var hafnað á grundvelli þess að viðkomandi uppfyllti ekki skilyrði um fimm árin,“ segir í frétt ráðuneytisins.
Ástæða þess að fréttin er birt er sú að í fjölmiðlaumfjöllun í kjölfar nýuppkveðins úrskurðar úrskurðarnefndar um upplýsingamál hefur verið fjallað um að Róbert Downey, dæmdur kynferðisbrotamaður sem fékk uppreist æru á síðasta ár, hafi fengið undanþágu frá almennri reglu um veitingu uppreist æru. Sú undanþága hafi falist í því að umsókn hans hafi verið tekin til meðferðar hjá dómsmálaráðuneytinu þrátt fyrir að ekki væru liðin fimm ár frá því að hann lauk afplánun. Róbert Downey hlaut þriggja ára fangelsisdóm árið 2008 fyrir kynferðisbrot gegn fjórum barnungum stúlkum. Hann hóf afplánun í febrúar 2009.
Í frétt ráðuneytisins segir að samkvæmt áralangri stjórnssýsluvenju „hefur uppreist æru verið veitt með vísan til 3. mgr. 85. gr. almennra hegningarlaga sem heimilar þegar sérstaklega stendur á að veita uppreist æru þegar 2 ár eru liðin frá afplánun refsingar. Í máli því sem úrskurður nefndarinnar tók til var ekki um að ræða sérmeðferð á máli viðkomandi umsækjenda. Þvert á móti fékk mál hans sömu meðferð og önnur mál sambærileg mál undanfarna áratugi.
Frá árunum 1995-2017 fengu 32 uppreist æru. Af þeim eru 14 sem fengu uppreist æru innan fimm ára eða 44 prósent Hinir, þ.e. 18 einstaklingar, sóttu um uppreist æru eftir að fimm ár höfðu liðið frá afplánun refsinga. Engum var hafnað á grundvelli þess að viðkomandi uppfyllti ekki skilyrði um fimm árin.“