Núverandi forsætisráðherra og dómsmálaráðherra, þau Bjarni Benediktsson og Sigríður Andersen, geta ekki setið áfram á ráðherrastólum á meðan á rannsókn málsins stendur, segir í ályktun ráðgjafaráðs Viðreisnar sem birtist á vef flokksins eftir að blaðmannafundi Bjarna Benediktssonar lauk síðdegis í dag.
Ráðgjafaráð Viðreisnar er skipað stjórn Viðreisnar, þingflokknum, formönnum málefnanefnda og stjórnum landshlutaráða. Ráðið var kallað saman í dag. Í ljósi „þeirrar alvarlegu stöðu og trúnaðarbrests sem kominn er upp,“ telur ráðgjafaráðið farsælast fyrir þjóðina að þing sé rofið og gengið sé til kosninga að nýju.
Í ályktuninni segir einnig að Brynjar Níelsson, formaður stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis, verði að víkja sæti.
„Vinnubrögð ráðherra Sjálfstæðisflokksins í málinu hafa ekki staðist þær kröfur sem Viðreisn gerir um vandaða starfshætti og gegnsæi. Upplýsa þarf að fullu um þá atburðarás sem leiddi til þess trúnaðarbrests sem orðinn er,“ segir í ályktuninni.