Tímamót áttu sér stað í íslensku samfélagi í gærkvöldi þegar ríkisstjórn landsins féll, ekki vegna peninga, ekki vegna pólitísks ágreinings atvinnustjórnmálamanna, heldur vegna þess að konur höfðu hátt. Fólk hafði hátt. Þetta kemur fram í ályktun sem Kvenréttindafélag Íslands sendi frá sér nú rétt fyrir hádegi. Þar kemur ennfremur fram að fólk hafi haft hátt um ofbeldi sem konur og börn voru beitt. „Fólk hafði hátt þegar dæmdir ofbeldismenn bönkuðu á dyr hjá vinum sínum til að biðja um greiða, til að leita samtryggingarinnar. Fólk hafði hátt þegar skrifræðið stimplaði hugsunarlaust á pappíra sem veittu ofbeldismönnum uppreist æru, án umræðu, án gagnsæis,“ segir í ályktuninni.
Ástæða ályktunarinnar er að stjórn Bjartrar framtíðar kom saman í gærkvöldi til að ræða stöðuna sem komin var upp eftir að í ljós kom að faðir forsætisráðherra skrifaði undir meðmælabréf með beiðni Hjalta Sigurjóns Haukssonar um að hann fengi uppreist æru. Í framhaldinu sleit Björt framtíð ríkisstjórnarsamstarfinu. Hjalti Sigurjón Hauksson fékk uppreist æru fyrr á árinu en hann hlaut á sínum tíma fimm og hálfs árs fangelsisdóm fyrir barnaníð. Hann braut gróflega gegn stjúpdóttur sinni, nær daglega, frá því hún var fimm til sex ára og þar til hún var á átjánda aldursári.
Mikil umræða hefur verið síðan í sumar um ferlið sem uppreist æra felur í sér og hafa fórnarlömb stigið fram og mótmælt ferlinu öllu. Helst hefur borið á fréttaflutningi af málum þeirra Roberts Downey og Hjalta Sigurjóns Haukssonar. Mikið hefur verið rætt um hvort þörf sé á að auka gagnsæi og breyta jafnvel ferlinu öllu. Myllumerkið #höfumhátt hefur farið eins og eldur í sinu í netheimum og margir látið í sér heyra til að mótmæla.
Í ályktun Kvenréttindafélags Íslands kemur einnig fram að Íslendingar sem samfélag hafi ekki lengur umburðarlyndi fyrir kynbundnu ofbeldi, fyrir ofbeldi gegn konum og börnum. Allt of lengi hafi ríkt þöggun í landinu um þá staðreynd að stór hluti kvenna og barna verði fyrir ofbeldi af hálfu þeirra sem næst þeim standa og séu ekki örugg á þeim stað sem þau ættu að vera öruggust á, á heimilum sínum.
„Við erum fullsödd á kerfi sem verndar ofbeldismenn og er sama um þolendur. Ofbeldi gegn konum er bein ógn við lýðræðislega þátttöku kvenna og þar með við lýðræði landsins. Hvernig getum við byggt jafnrétt og framsýnt samfélag, þegar við getum ekki enn tryggt öryggi allra borgara?
Tökum nú saman höndum, hægri og vinstri, konur og karlar og við öll þar á milli, og sköpum saman samfélag sem við erum stolt af, samfélag sem samtryggir okkur öll, ekki bara suma.“