„Ég hef lofað sjálfri mér því að hætta eftir þetta kjörtímabil, óháð lengd þessi,“ skrifar Birgitta Jónsdóttir, þingflokksformaður Pírata, á Facebook-síðu sína í morgun. Birgitta hyggist þess vegna ekki gefa kost á sér í fyrirhuguðum Alþingiskosningum sem væntanlega verður boðað til vegna þeirrar stöðu sem komin er upp í íslenskum stjórnmálum.
„Það er ekkert sem getur fengið mig til að skipta um skoðun. Ég er snortin af þeirri bylgju hvatningar að fara fram aftur sem ég hef fundið fyrir þvert á flokka sem og í grasrót minni,“ skrifar Birgitta.
Hún var spurð að því í kvöldfréttum RÚV í gærkvöldi hvort hún ætlaði að standa við orð sín og hætta. Þá sagðist hún eiga erfitt með að ganga á bak orða sinna en gaf ekki skýrt svar um hvort hún myndi hætta. Þeirri óvissu er hefur nú verið eytt.
„Ástæða þess að ég hef ekki viljað koma með þessa yfirlýsingu strax er einfaldlega vegna þess að þessu kjörtímabili er ekki lokið, þrátt fyrir að núverandi stjórn sé fallinn,“ skrifar Birgitta enn fremur.
„En það hefur verið ákall um að ég svari skýrt og afgerandi, bæði meðal félagsmanna sem og meðal okkar pólitísku andstæðinga.“
„Ég vil ekki halda fólki í óþarfa óvissu. Ég mun að sjálfsögðu þrátt fyrir að vera ekki í framboði í næstu kosningum, halda áfram að berjast fyrir réttlátara samfélagi og þeim breytingum sem ég hef lagt þunga á að ná í gegn hérlendis sem og erlendis.“
Þingmaður síðan 2009
Birgitta var fyrst kjörin á þing í kosningunum 2009 þegar hún tók sæti sem Alþingismaður Reykjavíkurkjördæmis suður fyrir Borgarahreyfinguna (síðar Hreyfinguna). Hún var svo kjörin á Alþingi að nýju fyrir Pírata í Suðvesturkjördæmi árið 2013 og svo aftur í kosningunum í fyrra.
Birgitta hefur verið leiðandi í starfi Pírata hér á landi og verið dyggur talsmaður þess að stjórnarskrá Íslands verði endurskoðuð.