Þing verður rofið þann 28. október næstkomandi og munu þingkosningar fara fram samdægurs. Bjarni Benediktsson forsætisráðherra las upp á Alþingi bréf forseta þess efnis en hann gekk á fund Guðna Th. Jóhannessonar forseta á Bessastöðum fyrir hádegi þar sem hann fékk undirritun hans við þingrofsbeiðninni.
Þingfundur byrjaði kl. 15:30 og lauk nokkrum mínútum síðar. „Við þekkjum öll aðdraganda þess að ég hef í dag lagt fyrir forseta þetta bréf sem ég hef hér lesið upp. Það formsatriði er hér með uppfyllt að bréfið sé tilkynnt á Alþingi til að það taki þar með gildi,“ sagði Bjarni eftir að hann las bréfið. Unnur Brá Konráðsdóttir, forseti Alþingis, sleit þingfundi strax á eftir.
Í þingrofi felst heimild handhafa framkvæmdarvaldsins (forseta Íslands að tillögu forsætisráðherra) til að stytta kjörtímabil Alþingis en Alþingi er kjörið til fjögurra ára í senn. Frá því að stjórnarskránni var breytt 1991 er með þingrofi í reynd verið að ákveða kjördag því að það tekur ekki gildi fyrr en á kjördegi. Með breytingunni 1991 var einnig þeirri skipan komið á að landið verður aldrei þingmannslaust þar sem þingmenn halda umboði sínu til kjördags.
Þrátt fyrir birtingu tilkynningar um þingrof lýkur störfum Alþingis ekki fyrr en þingið hefur samþykkt tillögu um frestun á störfum sínum fram að kjördegi. Eftir að birt hefur verið tilkynning um þingrof þarf að halda nýjar þingkosningar innan 45 daga frá útgáfu tilkynningarinnar og nýtt Alþingi skal koma saman eigi síðar en tíu vikum eftir kjördag.