Hvorki íslenska ríkið né Silicor Materials hafa áfrýjað dómi Héraðsdóms Reykjavíkur, frá 16. Júní á þessu ári, en með honum var fyrri ákvörðun Skipulagsstofnunar - um að kísilver Silicor Materials þyrfti ekki að fara umhverfismat - felld úr gildi.
Frestur til að áfrýja dómnum til Hæstaréttar rann út í gær, og því stendur niðurstaðan um að umhverfismat þurfi að fara fram.
Ákvörðun Skipulagsstofnunar kom fram 25. apríl 2014, og var hún á þá leið að fyrirhuguð framkvæmd Silicor Materials Inc., á Grundartanga í Hvalfjarðarsveit, skuli ekki háð mati á umhverfisáhrifum. Með dómnum var hún felld úr gildi, eins og áður segir.
Í dómnum var fallist á það með stefnendum að „verulegir annmarkar“ hafi verið ákvörðun Skipulagsstofnunar. Sagði meðal annars í dómnum að margt í ákvörðuninni stæðist ekki skoðun. „Varðandi úrgangsmyndun er í ákvörðuninni lögð áhersla á að hliðarafurðir nýtist sem söluvara og því sé um „lokað framleiðsluferli“ að ræða. Að mati dómsins fær sú fullyrðing vart staðist í ljósi þess að fyrir liggur að ryk kemur til með að berast frá verksmiðjunni út í andrúmsloftið auk saltvatns í frárennsli. Hins vegar ber ákvörðunin ekki með sér að lagt hafi verið sjálfstætt mat á eðli framkvæmdarinnar með tilliti til stærðar og umfangs hennar, nýtingar náttúruauðlinda, þar á meðal orkuauðlinda, eða slysahættu sem hún skapar,“ segir í dómnum.
Samkvæmt áformum sem kynnt hafa verið, er gert ráð fyrir að verksmiðjan skapi um 450 störf fullbúin og stuðli að efnahagslegri uppbyggingu á svæðinu við Grundartanga.
Ekki liggur fyrir í hvaða farveg undirbúningur þessa verkefnis fer nú, en gera má ráð fyrir að í ljósi þess að áfrýjunarfresturinn rann út í gær, án þess dómurinn hafi farið inn á borð Hæstaréttar, að Silicor Materials þurfi að fara með verkefnið í gegnum umhverfismat. Það ferli getur verið tímafrekt, en þó misjafnlega eftir því hversu vinnan við það er ítarleg.