Fyrr í mánuðinum keyptu Lífeyrissjóður verslunarmanna, Birta lífeyrissjóður og Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins (LSR), A og B deild, hlutabréf í HB Granda fyrir 1,7 milljarða króna. Stærsti aðilinn sem seldi bréfin sem keypt voru var Hampiðjan, sem hvarf útaf lista yfir 20 stærstu hluthafa.
Tveir sjóðir á vegum Stefnis, Stefnir ÍS 5 og Stefnir ÍS 15, keyptu samtals fyrir rúmlega 360 milljónir króna. Stærsti einstaki kaupandi bréfanna var LSR með kaup upp á samtals tæplega 800 milljónir króna.
Markaðsvirði HB Granda hefur lækkað mikið á síðustu tveimur viðskiptadögum í kauphöllinni, en virði félagsins féll hratt á föstudaginn, þegar skjálfti kom á markað eftir að slitnaði upp úr ríkisstjórnarsamstarfinu.
Markaðsvirði HB Granda er nú 58 milljarðar króna en stærsti einstaki hluthafinn er Vogun hf. þar sem Kristján Loftsson er stærsti eigandinn. Virði hlutar hans í HB Granda er í dag ríflega 19 milljarða, en eignarhlutinn nemur ríflega þriðjungi af heildarhlutafé.
Lífeyrissjóður verslunarmanna á stærsta eignarhlut lífeyrissjóða, samtals 13,3 prósent hlut.
Í febrúar á þessu ári seldi Hampiðjan 2,76 prósent hlut í HB Granda fyrir 1,5 milljarða króna, og var eignarhlut félagsins þá komin niður í um fjögur prósent.