Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, hótaði Norður-Kóreu „algerri tortímingu“ ef stjórnvöld í Pjongjang ógna Bandaríkjunum. Trump flutti sína fyrstu ræðu fyrir allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna í New York í dag.
Trump kallaði Kim Jong-un, leiðtoga Norður-Kóreu, meðal annars „Rocket man“ og sagði hann vera í sjálfsmorðsleiðangri með kjarnorkubröllti sínu.
Bandaríski forsetinn lagði áherslu á að Sameinuðu þjóðirnar myndu auka alþjóðlegan þrýsting á Norður-Kóreu vegna þróunar kjarnavopna þar í landi. Trump sagði þetta vera helsta vandamál heimsins í dag.
„Alræðisstjórnir styðja ekki aðeins hryðjuverkamenn heldur ógna þær öðrum þjóðum með mesta skaðræðisvopni sem mannkynið þekkir,“ sagði Trump. Fréttastofa Reuters greinir frá þessu.
Hinn óútreiknanlegi forseti las erindi sitt vandlega upp af handriti. Hann sagði Bandaríkjaher bráðum verða eins sterkur og hann hefur nokkru sinni verið.
„Ég mun verja Bandaríska hagsmuni umfram allt,“ sagði Trump í ræðu sinni þegar hann fjallaði um hvernig hann hyggist beita sér á alþjóðavettvangi. „Þegar við uppfyllum skyldu okkar gagnvart öðrum þjóðum þá er það okkur ljóst að það er allra hagur að í framtíðinni geti allar þjóðir verið sjálfstæðar, velmegandi og öruggar.“