Ekkert verður af fyrirhugaðu útboði og skráningu Arion banka síðar á þessu ári, að því er fram kemur í Markaðnum, fylgiriti Fréttablaðsins um viðskipti og efnahagsmál.
Slík áform hafa verið sett til hliðar vegna stjórnarslita og boðaðra kosninga til Alþingis í lok næsta mánaðar. Stefnir Kaupþing, sem á 58 prósenta hlut í bankanum, nú að því að losa um hlut sinn í bankanum í gegnum opið hlutafjárútboð á fyrsta fjórðungi næsta árs, samkvæmt heimildum Markaðarins, þegar ný ríkisstjórn ætti að hafa tekið til starfa eftir kosningar.
Ríkið á 13 prósent hlut í bankanum.
Fram kemur í Markaðnum að meðal þess sem staðið hefur í vegi fyrir því að hægt yrði að ráðast í skráningu Arion banka er sá möguleiki að stjórnvöld nýti sér forkaupsrétt sinn að hlut í bankanum ef hann yrði seldur á genginu 0,8 eða lægra miðað við eigið fé.
Eigið fé Arion banka nam 214 milljörðum króna í lok mars á þessu ári, og sé miðað við 0,8 sinnum eigið fé þá er verðmiðinn á bankanum 171,2 milljarðar króna. Hluturinn sem ríkið á núna er 22,2 milljarðar króna virði miðað við það.
Óhætt er að segja að ríkið sé umsvifamikið á bankamarkaði en það á allt hlutafé Íslandsbanka og ríflega 98 prósent hlut í Landsbankanum.
Fulltrúar Kaupþings hafa í þessum mánuði átt fjölmarga fundi með leiðtogum ríkisstjórnarinnar og embættismönnum í Seðlabanka Íslands og fjármálaráðuneytinu í því skyni að ná samkomulagi um endurskoðun ákvæðisins um forkaupsrétt ríkisins, að því er fram kemur í Markaðnum. Sú vinna var hins vegar ekki langt á veg komin og ekkert samkomulag fyrir hendi.