Kaupfélag Skagfirðinga á nú 15,84 prósent í Þórsmörk, einkahlutafélaginu sem á útgáfufélag Morgunblaðsins Árvakur, eftir að félagið Íslenskar sjávarafurðir keyptu 1,69 prósent hlut Lýsis. Íslenskar sjávarafurðir eru í eigu Kaupfélags Skagfirðinga. Frá þessu er greint í Markaðinum fylgiriti Fréttablaðsins.
Núverandi eigendur Árvakurs, juku hlutafé sitt um 200 milljónir króna í sumar. Kaupfélag Skagfirðinga lagði til mest af þeim peningum sem lagðir voru til viðbótar í félagið og við það minnkaði hlutur Ramses II, félags í eigu Eyþórs Arnalds, um nærri tvö prósentustig, og er nú 22,87 prósent. Eignarhlutur Íslenskra sjávarafurða hefur farið úr 9 prósentum í tæp 16 prósent í sumar.
Eyþór Arnalds er enn stærsti einstaki eigandi Árvakurs en félög tengd Ísfélagi Vestmannaeyja eru hins vegar enn með samanlagt stærstan eignarhlut. Ísfélagið á sjálft 13,43 prósent hlut og félagið Hlynur A, í eigu Guðbjargar Matthíasdóttur, aðaleiganda Ísfélagsins, á 16,45 prósent hlut. Auk þess á félagið Legalis 12,37 prósent hlut. Eigendur þess eru m.a. Sigurbjörn Magnússon, stjórnarformaður Árvakurs og stjórnarmaður í Ísfélaginu, og Gunnlaugur Sævar Gunnlaugsson, stjórnarformaður Ísfélagsins. Samanlagður hlutur þessarar blokkar í Árvakri er 42,25 prósent.
Eignarhaldsupplýsingar útgáfufélags Morgunblaðsins Árvakurs voru uppfærðar á vef Fjölmiðlanefndar 13. september síðastliðinn. Eignarhald Morgunblaðsins samkvæmt skráningu fjölmiðlanefndar má lesa hér að neðan:
Eigendur Árvakurs
-
Þórsmörk ehf., 99%
- Legalis sf., forsvarsmaður Sigurbjörn Magnússon, 1%
Eigendur Þórsmerkur ehf.
- Ramses II ehf., eigandi Eyþór Laxdal Arnalds, 22,87%
-
Hlynur A ehf., forsv.maður Guðbjörg Matthíasdóttir, 16,45%
-
Ísfélag Vestmannaeyja hf., forsv.maður Stefán Friðriksson 13,43%
- Íslenskar sjávarafurðir ehf., forsv.m. Sigurjón Rafnsson, 15,84%
- Legalis sf., forsv.maður Sigurbjörn Magnússon, 12,37%
- Rammi hf., forsv.maður Ólafur Marteinsson, 6,14%
- Þingey ehf., forsv.maður Aðalsteinn Ingólfsson 4,10%
-
Fjárfestingafélagið GIGAS ehf., forsv.m. Halldór Kristjánsson, 3,52%
- Brekkuhvarf ehf., 2,05%
- Fari ehf., forsv.maður Jón Pálmason, 1,76%
- Skollaborg ehf., forsv.m. Einar Valur Kristjánsson, 1,48%