Margir þjóðernispopúlískir stjórnmálaflokkar hafa komist til áhrifa á Norðurlöndum á undanförnum árum. Eríkur Bergmann, stjórnmálafræðiprófessor við Háskólann á Bifröst, hefur gert samanburðarrannsókn á uppgangi þjóðernispopúlískra flokka á Norðurlöndum.
Eiríkur segir þjóðernispopúlísk sjónarmið ferðast í bylgjum. „Þessir flokkar ná yfirleitt árangri í einhverskonar bylgjuhreyfingu, einhverri gusu, þar sem þeir rjúka fram í mörgum löndum á svipuðum tíma og ná einhverri stöðu. Oft hjaðnar stuðningurinn en í næstu bylgju þá verða þeir enn sterkari og svo framvegis.“
„Þessar bylgjur koma yfirleitt í kjölfarið á einhverskonar áfalli. Yfirleitt efnahagslegu áfalli en það getur líka verið með öðrum hætti,“ segir Eiríkur.
Þjóðernispopúlismi og hatursorðræða er til umfjöllunar í þætti Kjarnans á sjónvarpstöðinni Hringbraut sem frumsýndur verður í kvöld, miðvikudag klukkan 21:00. Auk Eiríks er Sema Erla Serdar, baráttukona gegn hatursorðræðu, gestur Þórðar Snæs Júlíussonar.
„Svo er Ísland alveg sér mál. Hér er þjóðernishyggja miklu almennari og viðteknari svo hún birtist með öðrum myndum,“ segir Eiríkur um festu þjóðernispopúlisma hér á landi samanborið við önnur Norðurlönd. „Þrátt fyrir að þjóðernispopúlismi sé til staðar í öllum ríkjum Norðurlandanna þá birtist hann með ótrúlega ólíkum hætti. Og það er það sem gerir þetta viðfangsefni svo áhugavert.“
„Þjóðernishyggja, öfugt við annars staðar í Vestur-Evrópu var aldrei útskúfuð á Íslandi. Hún var viðtekin og liggur í rauninni sem einskonar undirlag undir allri pólitík í landinu,“ segir Eiríkur um rætur nútímaþjóðernishyggju á Íslandi. Ástæðu þess að þjóðernishyggju hefur verið mætt með meira umburðarlyndi hér á landi en annars staðar má finna í sjálfstæðisbaráttu þjóðarinnar.
12 prósent fylgi við andspyrnu við múslima
Þrjú dæmi má nefna um stjórnmálaflokka sem náð hafa að auka fylgi sitt með þjóðernispopúlískum hætti. „Fyrsti stjórnmálaflokkurinn sem nær máli á þessum grunni er Frjálslyndi flokkurinn haustið 2006. Þá vil ég greina hann frá þeim Frjálslynda flokki sem var á undan,“ segir Eiríkur.
Frjálslyndi flokkurinn mældist í október 2006 með um tvö prósent fylgi en kosið var um vorið 2007. „Þeir fara í samræmdar aðgerðir gegn innflytjendum, sér í lagi múslimum. Þeir rjúka upp í ríflega 12 prósent á einum mánuði og bjarga sér síðan frá falli út af þingi vorið eftir.“
Annað dæmi um þetta var framboð Framsóknarflokksins í Reykjavík 2014, sem Eiríkur vill einnig greina frá öðrum öngum Framsóknarflokksins. Flokkurinn lék sama leik og Frjálslyndi flokkurinn þegar hann mældist með um tvö prósent fylgi. „Það er svolítið athyglisvert að þegar þau fara gegn bænahúsi múslima, þá fara þau [flokkurinn] líka upp í 12 prósent, alveg eins og Frjálslyndiflokkurinn. Þetta er eiginlega of líkt til þess að það geti bara verið tilviljun.“
Þriðja dæmið má svo færa rök fyrir að sé Flokkur fólksins. „Þessir flokkar eru kannski ekki fyrst og fremst þjóðernispopúlískir en þeir nota svipaðar aðferðir og fara inn í þetta mengi. Stundum bara tímabundið,“ segir Eiríkur.
Viðtalið má sjá í heild í Kjarnanum á Hringbraut klukkan 21:00 í kvöld, miðvikudag.